Home Fréttir Í fréttum BYKO gert að greiða tíunda hluta upphaflegrar sektar

BYKO gert að greiða tíunda hluta upphaflegrar sektar

141
0

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þess efnis að BYKO hafi brotið gegn banni við ólögmætu samráði. Nefndin taldi brotin hins vegar ekki jafn alvarleg og Samkeppniseftirlitið og var sekt fyrirtækisins því lækkuð úr 650 milljónum í 65 milljónir. Úrskurður þessa efnis var kveðinn upp í dag.

<>

Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar segir að „BYKO hafi brotið gegn ákvæðum 10. gr. samkeppnislaga. Er því í meginatriðum lýst að skipulögð og kerfisbundin upplýsingaskipti um verð hafi leitt til ástands sem þróaðist í þá átt að gera báðum kleift að hækka verð sín. Hin tíðu samskipti leiddu einnig til þess að leitað var eftir hreinræktuðu verðsamráði…“

Í apríl féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness í máli sérstaks saksóknara gegn starfsmönnum Húsasmiðjunnar, BYKO og Úlfsins sem tengdust málinu. Taldi áfrýjunarnefndin að hún væri ekki bundin af niðurstöðu dómsins en þar voru ellefu af tólf sakborningum sýknaðir. Orðrétt sagði í niðurstöðum dómsins: „Benda öll þessi skilaboð til þess að hið gagnstæða hafi verið, mikil og hörð samkeppni, en ekki verðsamráð“.

Í yfirlýsingu frá Samkeppniseftirlitinu kemur fram að því sé falið að meta hvort þeir almannahagsmunir, sem felast í virkri samkeppni, kalli á að úrskurðir áfrýjunarnefndarinnar séu bornir undir dómstóla. Í samræmi við þessar skyldur mun Samkeppniseftirlitið fara yfir forsendur nefndarinnar.

Í yfirlýsingu frá BYKO segir að fyrirtækið hafi alltaf haldið fram sakleysi sínu gagnvart hvers kyns ásökunum um ólögmætt verðsamráð. Enda þótt Áfrýjunarnefnd samkeppnismála komist að þeirri niðurstöðu að sektarfjárhæðin skuli einungis vera 10% af ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er ljóst að nefndin hefur að engu framangreinda niðurstöðu héraðsdóms um að ekki hafi verið um verðsamráð að ræða. BYKO lítur á úrskurð áfrýjunarnefndar sem áfangasigur og telur sig vera saklaust af hvers kyns ólögmætu verðsamráði. BYKO mun leita allra leiða til þess að fá þá einörðu afstöðu sína staðfesta.

Heimild: Vísir.is