Home Fréttir Í fréttum Veðmálajöfur með 49% í lúxushóteli

Veðmálajöfur með 49% í lúxushóteli

191
0
Björgvin Björgvinsson og Jóhann Haukur Hafstein, eiga meirihluta í verkefninu á móti tæplega helmingshlut James Russell DeLeon. Aðsend mynd

Fjárfestir í lúxushóteli á Grenivík efnaðist ríkulega á veðmálasíðunni PartyPoker. Hann kynntist verkefninu í þyrluskíðaferð.

<>

Gíbraltarbúinn James Russell DeLeon á tæplega helmingshlut í nýju lúxushóteli á Grenivík sem senn rís undir nafninu Höfði Lodge.

DeLeon efnaðist gífurlega á veðmálasíðunni PartyPoker í upphafi aldarinnar ásamt Ruth Parasol, þáverandi eiginkonu sinni.

Þau hafa birst á listum Forbes og The Sunday Times yfir ríkasta fólk Bandaríkjanna og Bretlands.

Aðalhvatamenn hótelbyggingarinnar eru Björgvin Björgvinsson og Jóhann Haukur Hafstein, eigendur þyrluskíðafélagsins Viking Heliskiing.

Á vef fyrirtækjaskrár eru þeir samtals skráðir fyrir 50,01% hlut í verkefninu á móti 49,99% hlut DeLeon.

Jóhann segir þá Björgvin hafa kynnst meðfjárfesti sínum í gegnum þyrluskíðaferðir sem DeLeon sótti hjá Viking Heliskiing. „Hann hefur mikinn áhuga á uppbyggingu á Íslandi og þyrluskíðum hér á landi,“ segir Jóhann.

Hótelið verður um 40 herbergi en húsnæðið er alls um 5.500 fermetrar með svítum, bar, veitingastað, heilsurækt, funda- og ráðstefnusal og miklu útsýni yfir Eyjafjörðinn.

Leggja á áherslu á afþreyingu fyrir efnaða ferðamenn. Ekki síst þyrluskíðaferðum en einnig laxveiði og annarri afþreyingu.

Framkvæmdir hefjast í sumar
Verkefnið er fullfjármagnað að sögn Jóhanns sem vill þó ekki gefa upp um áætlaðan kostnað við verkefnið eða hvernig fjármögnuninni verði háttað þar sem endanlegri hönnun sé ekki lokið. Búið er að leggja veg að hótelinu og markmiðið er að framkvæmdir hefjist í sumar.

„Hönnun hótelsins er í lokafasa. Við stefnum á að ljúka henni fljótlega og byrja að grafa fyrir grunni hótelsins síðsumars,“ segir Jóhann.

Milljarðamæringar eftir risaskráningu í London
DeLeon er lögfræðingur frá Harvard. Hann hóf aðkomu sína að veðmálafyrirtækinu PartyGaming árið 2001, með tilvonandi eiginkonu sinni Ruth Parasol. Parasol, sem er einnig lögfræðingur, hóf sinn viðskiptaferil með þátttöku í klámframleiðslufélagi föður síns, sem rak meðal annars erótíska símaþjónustu.

Parasol efnaðist nokkuð á því en færði sig yfir í veðmál á netinu árið 1997. PartyPoker, veðmálasíða PartyGaming, gerði þau hins vegar að milljarðamæringum.

Félagið var metið á tæplega 5 milljarða punda við skráningu á markað í London árið 2005. Skráningin var sú stærsta í kauphöllinni í London um nokkurra ára skeið.

Fyrir skráninguna hafði fjölskyldan og félagið flutt til Gíbraltar þar sem löggjöfin fyrir veðmálastarfsemi var hagstæðari en í Bandaríkjunum.

Hlutabréfaverð félagsins féll um meira en helming árið 2006 þegar lagabreyting í Bandaríkjunum olli því að starfsemi félagsins var bönnuð vestanhafs — á stærsta markaðssvæði félagsins.

DeLeon og Parasol gengu í hjónaband árið 2003 en skildu 2013 og var þá gert að selja allan hlut sinn í veðmálafyrirtækinu.

Á Linkedin síðu sinni segir DeLeon að hann hafi síðustu ár einna helst lagt áherslu á fjárfestingar í fasteignum, tækni, listum, kvikmyndum og fjölmiðlum.

Heimild: Vb.is