Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að leggja til fjármuni til þess að hækka varnargarða við Nátthaga. Grannt er fylgst með þróun hraunrennslis við gosstöðvarnar.
Nú þegar er búið að reisa varnargarða til að hefta för hraunsins úr Meradölum niður í Nátthaga og verja þannig Suðurstrandaveg og ljósleiðara sem liggur í mynni Nátthaga.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá þessu að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun og að það kostaði um 20 milljónir króna að setja garðana upp.
„Það var ákveðið að hækka þá um fjóra metra, þeir voru upphaflega áætlaðir fjórir metrar, það er verið að hækka þá upp í átta metra. Menn binda vonir við að það muni hafa einhver áhrif á hraunstreymið.“
Tilgangur framkvæmdanna er að varna því að hraun flæði úr eldgosinu niður í Nátthaga og verja þannig Suðurstrandaveg og ljósleiðara sem liggur í mynni Nátthaga. Ekki er gert ráð fyrir að lengra verði gengið í hækkun varnargarðanna.
Þegar gaus í Heimaey árið 1973 var snemma reynt að verja bæinn með því að ryðja upp varnargörðum úr gjalli. Einnig var sjó dælt á hraunjaðarinn til kælingar og með það að markmiði að hindra framrás hraunsins.
Heimild: Ruv.is