Landsnet áformar að endurnýja Kolviðarhólslínu 1 sem liggur á milli tengivirkjanna á Kolviðarhóli við Hellisheiðarvirkjun og Geithálsi ofan Reykjavíkur og var áður hluti af Búrfellslínu 3.
Tilgangurinn er að auka flutningsgetu línunnar inn á höfuðborgarsvæðið og Suðurnes. Skipulagsstofnun telur að framkvæmdin hafi ekki umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og ekki þurfi að gera mat á umhverfisáhrifum.
Endurnýja þarf línuna á 13 kílómetra kafla. Koma þarf fyrir sverari leiðurum sem núverandi möstur bera ekki.
Þegar tengivirki var byggt á Kolviðarhóli var endamastrið endurnýjað og fjögur burðarmöstur á um tveggja kílómetra kafla. Þau verða látin standa en 34 möstur endurnýjuð og byggð á þeim undirstöðum sem fyrir eru.
Gömlu möstrin verða felld og bútuð niður á staðnum og síðan flutt í burtu og sett í endurvinnslu. Notaðar verða sömu vinnuvélar við að reisa nýju möstrin.
Áfram stálgrindarmöstur
Nýju möstrin verða svokölluð M-stálgrindarmöstur með svipuðu útliti og þau möstur sem búið var að skipta um.
Ekki þykir skynsamlegt að setja upp stálröramöstur eins og eru í flestum nýjum háspennulínum Landsnets vegna þess að til þess að nýta undirstöðurnar þurfa nýju möstrin að vera svipuð þeim gömlu að stærð og styrk.
Endurnýjun Kolviðarhólslínu 1 er ekki á framkvæmdaáætlun. Landsnet hefur hug á að ráðast í verkefnið á árinu 2024, samkvæmt upplýsingum Steinunnar Þorsteinsdóttur upplýsingafulltrúa.
Línan liggur að hluta til á vatnsverndarsvæði. Landsnet mun láta gera áhættugreiningu með tilliti til vatnsverndar í samráði við heilbrigðiseftirlit.
Heilbrigðiseftirlitin á höfuðborgarsvæðinu óskuðu eftir frekari upplýsingum um sinkhúð nýju mastranna og möguleg áhrif mengunar á gróður og neysluvatn vegna flögnunar sinkhúðar mastranna.
Það er væntanlega gert í ljósi tæringar sem sést á yfirborði mastra í þessari bráðum fimmtugu háspennulínu og Landsnet rekur til útblásturs frá Hellisheiðarvirkjun.
Áhættugreining Landsnets mun taka til mögulegrar mengunar af völdum sinks og hvort tilefni sé til að vakta hana.
Heimild: Mbl.is