Íslenskir aðalverktakar (ÍAV) fara fram á að 105 Miðborg slhf. og Íslandssjóðir hf. greiði félaginu 3,8 milljarða króna í tengslum við deilur um uppbyggingu á svokölluðum Kirkjusandsreit.
105 Miðborg rifti samningi sínum við ÍAV um byggingu þriggja húsa á svæðinu upp á um tíu milljarða króna í lok febrúar. ÍAV telur riftunina ekki standast lög og hefur stefnt 105 Miðborg og Íslandssjóðum.
Íslandssjóðir eru í eigu Íslandsbanka og er greint frá stefnunni í ársfjórðungsuppgjöri bankans sem birt var í fyrradag. Fjárfestingafélagið 105 Miðborg er í stýringu Íslandssjóða og vinnur að uppbyggingu íbúða, hótels, skrifstofu- og verslunarhúsnæðis á svæðinu.
Stefna ÍAV var lögð fram þann 3. maí en fram kemur í uppgjöri Íslandsbanka að 105 Miðborg hafi áður hafnað kröfum ÍAV og undirbúi nú gagnstefnu. Er það mat Íslandssjóða að félagið sé ekki beinn aðili að deilunni.
Að sögn Íslandsbanka var ekki búið að gaumgæfa kröfurnar sem settar eru fram í stefnunni nægilega fyrir birtingu ársfjórðungsuppgjörsins þar sem stefnan var lögð fram einungis tveimur dögum fyrir birtingu uppgjörsins.
Fóru fram á að ÍAV löguðu galla án aukagreiðslna
Deilan snýst um byggingu þriggja húsa, tveggja íbúðarhúsa sem eru nánast tilbúin og búið að afhenda og skrifstofubyggingar sem er langt komin. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á tíu milljarða og er verkefnið nú komið í hendurnar á öðrum verktökum sem 105 Miðborg réð til að ljúka framkvæmdunum.
Er deilt um tafir á afhendingu húsanna og lagfæringar sem 105 Miðborg telur að ÍAV eigi að bæta og greiða fyrir.
Í svörum ÍAV frá því í byrjun mars sagði að verkkaupinn ætti að greiða fyrir hluta verksins sem fallið hafi utan samnings og einnig taka tillit til ýmissa utanaðkomandi þátta, einkum Covid-19, við ákvörðun verktíma og viðbótarkostnaðar.
ÍAV hafi boðað stöðvun verksins í janúar vegna ósamkomulags við 105 Miðborg en fallið frá henni eftir loforð um úrbætur sem ekki hafi staðist.
Þá sagði í yfirlýsingu ÍAV að fyrirtækið hafi ekki fengið greitt vegna vinnu við verkið frá lokum nóvember í fyrra.
Heimild: Visir.is