Home Fréttir Í fréttum Íbúðalánasjóður á 16% íbúða í Sandgerði

Íbúðalánasjóður á 16% íbúða í Sandgerði

140
0
Sandgerði

Fjöldi íbúða í Sandgerði liggur undir skemmdum og jafnvel getur farið svo að rífa þurfi sumar þeirra. Eignirnar eru í eigu Íbúðalánasjóðs sem á um 16% íbúða í bæjarfélaginu.

<>

Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri í Sandgerði hefur áhyggjur af stöðu mála en svo virðist sem sífellt fleiri íbúar séu að missa eignir sínar og íbúum fækkar í bænum sökum skorts á leiguhúsnæði. Víkurfréttir fjölluðu um málið í vikunni. „Þetta er auðvitað bara mjög slæmt ástand að sjóðurinn hefur verið að eignast sífellt fleiri eignir í bænum á undanförnum árum,“ segir Sigrún.

Hún segir það afar slæma stöðu að af þeim 90 íbúðum sem sjóðurinn á, séu um 50 sem standi auðar og grotni niður. Þetta hafi mikil áhrif á ásýnd bæjarins. Sigrún segir að sumar íbúðirnar séu það illa farnar að það þurfi hugsanlega að rífa þær. „Já það er mjög mikill skortur á leiguhúsnæði. Það er mjög mikil eftirspurn en þrátt fyrir það að allar þessar eignir standi auðar þá er framboðið nánast ekki neitt.“

Það hafi í för með sér að íbúum í bænum hefur fækkað þrátt fyrir að atvinnuástand hafi verið að glæðast. Settur hefur verið saman sérstakur starfshópur með fulltrúum velferðarráðuneytis, Íbúðalánasjóðs og Sandgerðisbæjar. Unnið er að lausn þessara mála en vænta má niðurstöðu frá hópnum á næstu vikum. „Það er verið að vinna í þessu en okkur hefur þótt þetta ganga allt of hægt en við erum búin að vekja máls á þessu árum saman.“

Heimild: Rúv.is