Litlar líkur eru á því að skortur verði á íbúðum miðað við það magn sem er nú í byggingu og þann fjölda íbúða sem þarf til að mæta þörf.
Þetta segir hagfræðideild Landsbankans sem bætir þó við að það annað mál hvort verið sé að byggja í takt við eftirspurn. Opinber gögn bendi til þess að nú sé mögulega verið að byggja umfram árlega þörf á íbúðamarkaði út frá mannfjöldaþróun. Eftirspurn hefur aðallega aukist eftir stærri og dýrari sérbýliseignum sem eru sjaldgæfari í byggingu.
Framboð virðist vera gott miðað við þörf út frá mannfjölda
Að mati hagfræðideildarinnar þurfa um 1.700 íbúðir að komast á það byggingastig að verða fokheldar (stig fjögur) á hverju ári til að viðhalda þörf miðað við stöðuga mannfjöldaaukningu.
Samkvæmt Þjóðskrá komust yfir 3.000 íbúðir á það stig síðustu tvö ár og voru tæplega 2.600 íbúðir á stigum eitt til þrjú um síðustu áramót. Framboð af íbúðum virðist því vera nokkurt um þessar mundir ef tekið er mið af þörf út frá mannfjölda.
Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Íbúðir sem náðu því stigi að verða fullbúnar (stig 7) í fyrra voru um 3.800 talsins og hafa ekki verið fleiri síðan árið 2007, þegar þær voru tæplega 5.000 samkvæmt Þjóðskrá.
Um síðustu áramót voru samtals 4.400 íbúðir í byggingu, óháð byggingarstigi, tæplega 2.800 þeirra í fjölbýli og um 1.600 í sérbýli. Hlutfall sérbýlis á meðal íbúða í byggingu hefur dregist saman á síðustu árum.