Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í dag að hann gæti gagnrýnt stjórnvöld fyrir of litla áherslu á fjárfestingu í faraldrinum.
Hann stingur upp á því að ríkið verði alltaf klárt að keyra 4-5 stór verkefni af stað.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á opnum fundi með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í dag að ef hann ætti að gagnrýna aðgerðir stjórnvalda í ríkisfjármálum væri það fyrir of litla áherslu á fjárfestingar og aðgerðir til að auka langtímahagvöxt.
„Það eru kannski skýringar á því, það er erfitt að koma með einhverjar fjárfestingar og draga þær upp úr erminni bara sisvona, en almennt séð ætti ríkið að hafa tvenns konar hlutverk í að bregðast við faraldrinum; dreifa áfallinu á alla og stuðla að aukinni nýliðun,“ sagði Ásgeir á fundinum.
Seðlabankastjórinn sagðist ennfremur á fundinum ekki skilja af hverju ríkið væri ekki á hverjum tímapunkti tilbúið með kannski 4-5 stór verkefni sem hægt væri að keyra hratt af stað ef það kæmi niðursveifla í hagkerfinu með tilheyrandi atvinnuleysi.
„Ég á erfitt með að skilja það núna af hverju við vorum ekki reiðubúin að keyra einhverjar innviðafjárfestingar af stað, því það er svo miklu ódýrara fyrir ríkissjóð að fara í framkvæmdir á þeim tíma þegar það er atvinnuleysi og það er hægt að fá hagstæð tilboð í útboðum frá verktökum […]
Ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að hugsa í framhaldinu, sérstaklega þegar við erum að reiða okkur á tiltölulega fáar greinar í útflutningi,“ sagði Ásgeir og nefndi að jafnvel væri hægt að setja upp einhvers konar hóp, „task force,“ til þess að hafa verkefni klár þegar kreppti að.
Hann kom ásamt Gunnari Jakobssyni varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika á fund þingnefndarinnar í dag til þess að ræða nýlega skýrslu fjármálastöðugleikanefndar til þingsins.
Á fulltrúum Seðlabankans var að merkja að ástæða væri til bjartsýni, þrátt fyrir að staða mála yrði áfram háð óvissu á meðan heimsfaraldurinn geisaði enn.
Gunnar lýsti því að nýskipuð fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans hefði fengið „raunhæft verkefni“ upp í hendurnar þegar heimsfaraldurinn skall á í fyrra, en nefndin hóf störf í upphafi mars 2020.
Ráðgert hafði verið að nefndin kæmi saman til funda fjórum sinnum á ári, en nefndin var þegar búin að funda fjórum sinnum áður en apríl 2020 var á enda.
Fasteignamarkaðurinn einn helsti áhættuþátturinn
Einn stærsti áhættuþátturinn varðandi stöðu mála hér á landi er fasteignamarkaðurinn, sagði Ásgeir á fundinum og nefndi hann að þróunarvinna biði Seðlabankans varðandi tæki bankans til að hafa hemil á fasteignaverði.
Gunnar sagði einnig að það þyrfti að fylgjast náið með fasteignamarkaðnum, þrátt fyrir að það væri ekki mat bankans að það væri einhver bólumyndun hafin þar. Kjarninn fjallaði nýlega um mat fjármálastöðugleikanefndarinnar á horfum og stöðu á fasteignamarkaði.
„Fasteignamarkaðurinn er almennt séð fall af launum,“ sagði Gunnar og bætti við að það væri eðlilegt að fasteignamarkaðurinn færi upp eins og hann hefði gert undanfarna mánuði þar sem greiðslugeta og kaupmáttur fólks í landinu hefði aukist.
Einnig spilaði þarna inn í að þegar vextir væru lækkaðir eins og gert hefur verið fái „fasteignir meira gildi sem fjárfestingar fyrir þá sem eru að bera þær saman við aðrar fjárfestingar.“
Hækkun á fasteignaverði á síðasta ári væri ekki áhyggjuefni enn sem komið er. Það væri þó alltaf hætta á að því að geti myndast bólur og sagði Gunnar Seðlabankann tilbúinn að beita þeim tækjum sem hann hefði til að bregðast við bólumyndun, ef hún verður.
Einnig væri verðbólga áhyggjuefni. Mikið hefði verið um verðhækkanir á heimsvísu og minntist Gunnar á að timbur hefði hækkað um 200 prósent á undanförnum mánuðum og flutningsgjöld í alþjóðaviðskiptum hefðu stóraukist þar sem flutningagámar hefðu ekki verið á réttum stöðum auk þess sem ótrúlegur fjöldi flutningaskipa hefði verið settur í niðurbrot á síðasta ári þar sem búist hefði verið við mun harðari kreppu en raunin varð.
Léleg gögn
Léleg samtímagögn um það sem er í gangi í íslenska hagkerfinu voru til umræðu á fundinum og fagnaði Ásgeir spurningu nefndarmannsins Björns Levís Gunnarssonar um hvort ekki þyrfti að eiga betri gögn um ýmis mál um staðreyndir í hagkerfinu, til dæmis fasteignamarkaðinn og íbúðir í byggingu.
Vissulega þyrfti betri gögn, sögðu bankastjórarnir báðir, og bættu við að Seðlabankinn væri að vinna í því að útvega sér betri gögn. Gunnar nefndi sem dæmi að reglulega væri það deilumál hér á landi hvort sveitarfélög væru að bjóða fram nægilega margar lóðir undir íbúðir.
„Við ættum að vita þetta, hvort það er nægt framboð af lóðum eða ekki, þetta ætti ekki að vera eitthvað deiluefni,“ sagði Gunnar.
Tókst að verja stöðugleikann
Heilt yfir, sagði Gunnar á fundinum, tókst að verja stöðugleikann hér á landi á síðasta ári með aðgerðum Seðlabankans og stjórnvalda, bæði fjármálastöðugleika og stöðugleikann í hagkerfinu almennt.
„Okkur tókst að verja kaupmátt og það tókst að koma í veg fyrir hrun í atvinnulífinu,“ sagði Gunnar, sem sagði sérstaklega standa upp úr hvað bankakerfið stæði sterkt eftir faraldurinn. Við værum kannski aðeins farin að gleyma því í dag að í mars í fyrra var eins og það stefndi í hrun á eignamarkaði, sem varð síðan ekki.
Þá væri byggingargeirinn í mun betri málum en óttast hefði verið. Innan Seðlabankans hefðu verið „miklar áhyggjur af því að þar gæti orðið algjör hrun“ en það hefði „heldur betur ekki gerst“. Þar spiluðu meðal annars inn í vaxtalækkanir og kaupmáttaraukning.
Heimild: Kjarninn.is