Home Fréttir Í fréttum Mikil fjölgun íbúa á Selfossi: Byggja 800 íbúðir á næstu þremur árum

Mikil fjölgun íbúa á Selfossi: Byggja 800 íbúðir á næstu þremur árum

92
0
Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Um 800 íbúðir verða byggðar á Selfossi á næstu þremur árum til að mæta mikilli fjölgun íbúa. Bæjarstjórinn telur að skortur á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu skýri þessa þróun að hluta.

Íbúum á Selofssi hefur stöðugt fjölgað að undanförnu, og ekkert lát virðist ætla að verða á þeirri þróun. Spáð er rúmlega sjö prósenta fjölgun á þessu ári, og um tíu prósenta fjölgun á ári næstu tvö árin eftir það.

<>

Til þess að mæta þessari fjölgun er nú verið að byggja um 300 íbúðir í bænum, og til stendur að byggja 500 í viðbót næstu tvö árin. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Árborg, telur að náttúran og góð þjónusta laði fólk til Selfoss.

„Síðan tengist þetta auðvitað líka íbúðaframboði á höfuðborgarsvæðinu sem er ekki nógu mikið. Það kann að vera að fólk vilji komast úr ösinni og örtröðinni í Reykjavík, en svo er það líka íbúðaframboð og íbúðaverð.

Og þar stöndum við mjög framarlega miðað við önnur sveitarfélög, í framleiðslu íbúða, enda eftirspurnin mjög mikil,“ segir Gísli.

COVID breytir stöðunni

Skynjið þið að þetta sé fólk sem er að flytja af höfuðborgarsvæðinu en ætlar sér að vinna áfram á höfuðborgarsvæðinu, þótt það búi hér?

„Það er mikið til þannig. Við höfum mælt það að 15-20% vinnufærra manna sækja störf yfir heiði. En auðvitað teljum við að fyrir lífsgæði þessa fólks, þá sé okkar verkefni að skapa því aðstöðu til að starfa hér. Og COVID og fjarvinnan eykur auðvitað möguleikann á því.“

Og kannski bættar samgöngur hér á milli?

„Alveg klárlega. Þær skipta mjög miklu máli í þessu sambandi. En hér er náttúrulega líka gríðarlega fjölbreytt og mikil þjónusta þannig að fólk þarf ekki að sækja allt til höfuðborgarinnar. En það er vissulega gott að sækja þangað ýmsa sérfræðiþjónustu og verður áfram.“

Hvað með ýmsa innviði eins og skóla, anna þeir þessari fólksfjölgun?

„Nei, þeir gera það ekki. Við opnum nýjan skóla, Stekkjaskóla, í haust í færanlegum kennslustofum. Síðan rísa byggingarnar á næsta ári, það er verið að vinna í þeim hérna á fullu.

En við sjáum fyrir okkur að þurfa í þarnæsta skóla að negla síðustu naglana eftir fjögur ár miðað við þá fjölgun sem blasir við okkur. Þannig að við þurfum að herða róðurinn og reyna að vera á undan. Við erum aðeins á eftir núna,“ segir Gísli.

Heimild: Ruv.is