Samtals hefur Dalvíkurbyggð úthlutað þrjátíu og einni lóð fyrir íbúðarhús á síðustu mánuðum, þar af tuttugu á síðasta fundi umhverfisráðs. Það verður því mikið byggt í sveitarfélaginu á næstu einu til tveimur árum.
Ekki verið byggt mikið undanfarin ár
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, segir ekki alveg ljóst af hverju þessi mikla eftirspurn sé að myndast núna. „Það hefur ekki verið byggt mikið hér undanfarin ár og hefur safnast upp svolítil þörf.“
„Finnst þér þetta vera fólk sem er á staðnum, eða eruð þið að fá nýja íbúa sem eru að flytja hingað?“
„Það er nú mikið núna, það sem maður hefur heyrt að hafi selst, það eru innfæddir Dalvíkingar. En við höfum líka verið að fá fólk að, frá Akureyri og víðar.“
Langflestum lóðum úthlutað á Dalvík
Á þessu ári stendur til að deiliskipuleggja nýtt íbúðahverfi sunnan núverandi byggðar á Dalvík og þá segir Katrín einnig hægt að stækka bæinn í norðurátt. Og langflestar af þeim lóðum sem búið er að úthluta eru á Dalvík.
En það er einnig sótt um lóðir á Árskógssandi og á Hauganesi. Þar hefur ekki verið byggt íbúðarhús í 30 ár. „Það hefur byggst aðeins á Árskógssandi undanfarin ár,“ segir Katrín.
„En það hefur ekki verið byggt á Hauganesi frá því ’91 eða ’92, þannig að það er alveg komin þörf þar. Og við erum að ljúka nýju deiliskipulagi fyrir Hauganes núna og vonandi verður það til þess að fólk horfi á Hauganes sem vænlegan búsetukost.“
„Við erum bara mjög hamingjusöm með þetta“
Og sveitarfélagið eigi nægt byggingarland og verði tilbúið með nýjar íbúðalóðir haldi þessi þróun áfram. Þá segir Katrín ókeypis gatnagerðargjöld við þegar tilbúnar götur á Dalvík og þannig verði það út árið 2022.
„Við erum bara mjög hamingjusöm með þetta. Auðvitað er Dalvíkurbyggð vel í sveit sett, ef við getum sagt það svo. Stutt í atvinnusvæðin bæði í Fjallabyggð og á Akureyri,“ segir hún.
Heimild: Ruv.is