Home Fréttir Í fréttum Risastór landeldisstöð rís við Þorlákshöfn

Risastór landeldisstöð rís við Þorlákshöfn

308
0
Mynd: Landeldi ehf. / Aðsend mynd
Framkvæmdir við stærstu fiskeldisstöð á landi hér á landi eru hafnar, steinsnar frá Þorlákshöfn. Áætlað er að framleiða þar rúmlega 20.000 tonn af laxi á ári. Útflutningsverðmætin gætu orðið um 20 milljarðar króna og um 150 störf gætu skapast.

Í landi Ölfuss, skammt vestur af Þorlákshöfn, eru hafnar framkvæmdir við laxeldisstöð á landi, sem verður stærsta landeldisstöð á Íslandi, og þótt víðar væri leitað. Það eru sex Íslendingar sem stofnuðu fyrirtækið Landeldi ehf. sem standa að verkefninu.

<>

„Þetta svæði er einstakt,“ segir Ingólfur Snorrason, einn sexmenninganna. „Hér höfum við aðgang að nokkuð jöfnu hitastigi í sjó í gegnum jarðveginn hérna undir okkur, við erum með mjög góða staðsetningu varðandi höfnina í Þorlákshöfn, og allar þær breytingar sem eru að verða á henni núna og í þjónustu við hana. Við erum líka nálægt flugvellinum og svo er gríðarlega mikil þekking á vinnslu og sjávarfangi hér í plássinu.“

Sjókvíaeldi er mjög umdeilt, bæði hér á landi og erlendis, enda af mörgum talið óumhverfisvænt. Ingólfur segir að strax í upphafi hafi verið ákveðið að hafa þetta eldi uppi á landi.

„Það er ekki bara að það er mikið af fólki á þessari jörð sem við lifum á, heldur er það bara þannig að neytendur eru orðnir mjög meðvitaðir um umhverfisvernd, og umgengni um umhverfið,“ segir Ingólfur.

20 milljarða verðmæti

Ingólfur segir að búið sé að samþykkja umhvefismat fyrir um 6.000 tonna ársframleiðslu, en að stefnt sé að því að framleiða rúmlega 20.000 tonn á ári áður en langt um líður.

Og hver gætu útflutningsverðmæti þess orðið?

„Fyrir 20.000 tonna framleiðslu? Það gæti legið í kringum 20 milljarða.“

Ingólfur segir að meðal annars sé stefnt á að flytja laxinn til Bandaríkjanna, en að þau mál séu nú í skoðun. Alls geti fiskeldið skapað um 150 störf á svæðinu.

„Við erum byrjaðir að framleiða. Við erum með seiðastöð nærri Hveragerði og erum komnir með um 800.000 seiði og hrogn. Og við skulum segja að það sé fyrsta kynslóðin okkar.“

Og hvenær verður sá fiskur kominn í sláturstærð þannig að þið getið byrjað að selja?

„Í lok næsta árs,“ segir Ingólfur.

Heimild: Ruv.is