Home Fréttir Í fréttum Byggingarreglugerð nú aðgengilegri á netinu

Byggingarreglugerð nú aðgengilegri á netinu

619
0
mynd: Frettabladid.is
  • Á byggingarreglugerd.is er hægt að fletta á einfaldan hátt upp í reglugerðinni sem áður var aðeins að finna samsetta á PDF formi á vef HMS
  • Leiðbeiningar með reglugerðinni eru einnig aðgengilegar á síðunni
  • Reglugerðin er afar umfangsmikil og nær yfir allt framkvæmdaferlið, allt frá ábyrgð hönnuða til framkvæmda lokaúttekta

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur opnað sérstakan vef tileinkaðan byggingarreglugerðinni sem finna má á slóðinni byggingarreglugerd.is. Þar er nú hægt að fletta upp á einfaldan hátt í þeim reglum sem gilda um framkvæmdir, leyfi, hönnunargögn og úttektir, svo fátt eitt sé nefnt. Áður var reglugerðina aðeins að finna samsetta í PDF skjali á vef HMS.

<>

Hægt er að skoða allar breytingar sem gerðar hafa verið á byggingarreglugerðinni síðan hún tók fyrst gildi og fylgja leiðbeiningar með þar sem finna má nánari skýringar, túlkun eða tæknilegar útfærslur.

Heimilt að byggja allt að 40 fm hús á lóð án byggingarleyfis

Byggingarreglugerðin inniheldur reglur sem viðkoma öllum sem koma að mannvirkjagerð eða fara með stjórnsýslu vegna mannvirkja, s.s. sveitarfélögum, en einnig eigendum, kaupendum, leigjendum, byggjendum o.s.frv. Undanfarið hefur verið mikið um að fólk vilji ráðast í breytingar og ýmsar framkvæmdir á fasteignum og er tilvalið fyrir einstaklinga í framkvæmdahug að glugga í byggingarreglugerð, t.d. til að fá á hreint í hvaða tilvikum þarf ekki að sækja um byggingarleyfi.

Sem dæmi má nefna að samkvæmt breytingu sem gerð var fyrir nokkrum árum þá þarf ekki lengur að sækja um byggingarleyfi til að byggja allt að 40 fm hús á lóð. Þetta getur t.d. verið nokkuð veglegt gestahús, bílskúr eða vinnustofa. Er slík framkvæmd aðeins tilkynningarskyld.

Slóð á vefinn: www.byggingarreglugerd.is.

Nánar um byggingarreglugerðina

Fyrstu byggingarlögin sem náðu til alls landsins tóku gildi í byrjun árs 1979 en áður hafði hvert sveitarfélag sett reglur fyrir sitt umdæmi um tæknilega gerð mannvirkja og framkvæmd byggingareftirlits. Síðar sama ár tók fyrsta byggingarreglugerðin gildi. Áfram höfðu sveitarfélögin heimild til að setja staðbundnar byggingarsamþykktir. Miðlæg stýring málaflokksins á þessum árum var lítil. Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins gegndi lengi mikilvægu hlutverki með því að framkvæma rannsóknir á sviði byggingarmála og gefa út leiðbeiningar um ýmis tæknileg málefni, en mikið dró úr þeirri starfsemi þegar hún varð hluti af Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Það var ekki fyrr en með setningu mannvirkjalaga árið 2011 sem regluverk byggingarmála varð að fullu samræmt á öllu landinu og það varð yfirlýst markmið löggjafans að samræma stjórnsýslu byggingareftirlits. Eitt af meginmarkmiðum með stofnun Mannvirkjastofnunar á sínum tíma var að vinna að þessari samræmingu og gegna leiðbeiningarhlutverki gagnvart byggingarfulltrúum og fagaðilum. Um áramótin 2019-2020 sameinuðust Mannvirkjastofnun og Íbúðalánasjóður undir nafni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

 

Heimild: HMS.is