Home Fréttir Í fréttum 58 lóðir í Þorlákshöfn fóru á tveimur dögum

58 lóðir í Þorlákshöfn fóru á tveimur dögum

192
0
Mynd: RÚV
Umframeftirspurn er eftir lóðum í Þorlákshöfn. 58 lóðir sem auglýstar voru fóru á aðeins tveimur dögum.
Bæjarstjórinn segir að draga þurfi um lóðir og því sitji einhverjir eftir með sárt ennið.

Íbúum í sveitarfélaginu Ölfusi hefur fjölgað hratt að undanförnu, eða um 7-10% á ári. Fjölgunin hefur verið hvað mest í Þorlákshöfn, þar sem mikil eftirspurn er eftir lóðum.

<>

„Og hún er eiginlega það mikil að það er sama hvað við hlaupum hratt og skipuleggjum hratt, lóðirnar fara jafnvel enn hraðar,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.

„Við skipulögðum og auglýstum 58 íbúðaeiningar fyrir tveimur mánuðum. Við auglýstum þær á þriðjudegi og allar lóðir voru farnar á fimmtudegi. Þannig að enn þurfum við að hlaupa hraðar.“

Sitja einhverjir eftir með sárt ennið, einhverjir sem fá ekki lóð?

„Já því miður hefur þurft að draga um lóðir hjá okkur í svolítinn tíma.“

Stækka leikskóla og dvalarheimili

Hvað skýrir þessa miklu eftirspurn?

„Það er margt sem skýrir. COVID hefur haft áhrif, fólk miklar minna fyrir sér að búa fjær vinnustaðnum, það eru svo margir sem geta unnið hluta í fjarvinnu. Og það tekur ekki nema 25 mínútur að keyra til Þorlákshafnar úr Reykjavík. Og síðan er verulegur lóðaskortur á höfuðborgarsvæðinu, lóðir hér eru mikið ódýrari.“

Elliði segir mikilvægt að innviðir séu í lagi þegar íbúum fjölgar svona hratt.

„Það er eitt af því sem við erum að undirbúa núna. Það er ekki nóg að skipuleggja íbúðalóðir, innviðirnir þurfa að vaxa með. Þess vegna erum við að stækka leikskóla og dvalarheimili aldraðra, að byggja nýjan leikskóla og þar fram eftir götunum.

Við ætlum að reyna að lenda ekki undir skriðunni, heldur vera alltaf aðeins fyrir framan hana með innviðina.“

Heimild: Ruv.is