Home Fréttir Í fréttum Bygg­ing­a­geir­inn ekki orð­ið fyr­ir mikl­um skakk­a­föll­um

Bygg­ing­a­geir­inn ekki orð­ið fyr­ir mikl­um skakk­a­föll­um

109
0
mynd: Frettabladid.is

Þrátt fyrir að tímabundið hafi dregið úr nýjum byggingarverkefnum á meðan óvissa ríkir um efnahagsleg áhrif COVID-19 var mikill fjöldi byggingarleyfa fyrir nýjar íbúðir veittur á síðasta ári.

<>

Vísbendingar eru um að byggingageirinn hafi ekki orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna COVID-19 farsóttarinnar. Skuldir byggingageirans við kerfislega mikilvæga banka dróst saman um 15 prósent að raunvirði í lok janúar á milli ára enda hefur fasteignasala verið mikil.

Þetta sagði Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands, á opnum fundi í morgun.

Fjöldi starfandi í byggingariðnaði haldist stöðugur
Hann benti á að fjöldi starfandi í byggingariðnaði hafi haldist nokkuð stöðugur undanfarin misseri og fram kemur í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabankinn hefur veg og vanda að, að þar að auki hafi frystingar útlána til byggingargeirans verið óverulegar.

Ný lán til fyrirtækja í byggingageiranum jukust um 20 milljarða á árinu 2020. Hrein ný útlán reyndust samt sem áður neikvæð um 24 milljarðar króna vegna aukinna uppgreiðslna á tímabilinu, að því fram kemur í ritinu.

„Á fyrstu tveimur mánuðum yfirstandandi árs hafa hrein ný útlán til byggingageirans áfram mælst neikvæð. Á heildina litið hafa hrein ný útlán til fyrirtækja þó heldur farið vaxandi á síðustu mánuðum, mögulega til marks um minnkandi óvissu,“ segir í ritinu.

Í Fjármálastöðugleika segir að rúmlega 3.800 nýjar íbúðir hafi komið inn á íbúðamarkaðinn á síðasta ári sem sé metfjöldi.

Fjöldi byggingarleyfa veittur á síðasta ári
„Um fjórðungs samdráttur var þó á íbúðum í byggingu í lok ársins samanborið við lok árs 2019 og þá fækkaði einnig verulega íbúðum sem framkvæmdir hófust við á árinu. Íbúðatalning Samtaka iðnaðarins frá mars síðastliðnum sýnir sömuleiðis mikla fækkun á íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Þrátt fyrir að tímabundið hafi dregið úr nýjum verkefnum á meðan óvissa ríkir um efnahagsleg áhrif faraldursins var mikill fjöldi byggingarleyfa fyrir nýjar íbúðir veittur á síðasta ári samkvæmt ársskýrslu byggingarfulltrúans í Reykjavík.

Aðgerðir Seðlabanka Íslands og stjórnvalda hafa stutt við byggingarstarfsemi til dæmis með lækkun vaxta og endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við viðhald húsnæðis,“ segir í Fjármálastöðugleika.

Heimild: Frettabladid.is