Bygging 765 fermetra gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri hefur verið boðin út í samstarfi Framkvæmdasýslu ríkisins og Ríkiskaupa. Skilafrestur gagna í útboðinu er 21. apríl.
Byggingin er einnar hæðar með kjallara undir hluta hennar. Byggingin er hönnuð þannig að hún falli vel að landinu með gönguleiðum upp á þak byggingar og akstursbraut niður að kjallara húss.
Húsið er að hluta til einangrað að utan og jarðvegur lagður að því, forsteyptar steypueiningar og glerveggjakerfi. Þak er með ábræddum þakpappa og lagt með torfi. Ganga skal frá húsinu að utan og innan ásamt lóð fullbúnu til notanda.
Fyrsta skóflustunga að húsinu var tekin í júní 2020. Búið er að grafa fyrir húsi, grafa og fylla í bílastæði og setja upp heildargirðingu fyrir verksvæðið, sem var framkvæmt í sérstöku jarðvinnuútboði. Jarðvinna í þessu verki felst í að fylla í sökkla, fylla að húsi, grafa og endurfylla í lagnaskurði undir og meðfram húsi.
Heimild: Mbl.is