Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur ákveðið að afla upplýsinga frá fyrirtæki í Litháen sem kom með eina tilboðið í fjölnota knattspyrnuhús á Ísafirði.
Tilboðið var langt yfir kostnaðaráætlun og markmið bæjarins er að finna leiðir til að fá húsið reist fyrir verð sem rúmast innan fjárhagsáætlunar bæjarins.
Allt kjörtímabil bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar hefur verið unnið að undirbúningi byggingar fjölnota knattspyrnuhúss á íþróttasvæðinu á Torfnesi á Ísafirði.
Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs, segir að æfingaaðstaða knattspyrnufólks sé bágborin, bæði grasvöllurinn og gervigrasvöllurinn þarfnist lagfæringa og íþróttahúsið á Torfnesi anni ekki eftirspurn.
Með því að byggja knattspyrnuhús og koma knattspyrnunni þangað á veturna geti aðrar íþróttagreinar fengið meira svigrúm í íþróttahúsinu.
„Við búum á Vestfjörðum, knattspyrnan er orðin heilsársíþróttagrein og ef við ætlum að búa börnum okkar sambærilega aðstöðu og börn hafa annars staðar, þarf að fara í slíkar framkvæmdir. Það hefur verið gert annars staðar,“ segir Daníel og nefnir að meiri not verði af fjölnota knattspyrnuhúsinu en aðeins fyrir knattspyrnuæfingar, eins og heiti þess bendir til.
Nefnir hann möguleika á öðrum íþróttum til hliðar og skemmtanahald. „Ég tel að Ísafjörður verði betri staður að búa á eftir að knattspyrnuhús rís,“ segir Daníel í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is