Home Fréttir Í fréttum Í viðræður vegna byggingar sem stendur of hátt – Framkvæmdir verið stopp...

Í viðræður vegna byggingar sem stendur of hátt – Framkvæmdir verið stopp í rúmt ár

234
0

Bæjarstjóra og bæjarlögmanni hefur verið falið, af bæjarráði Reykjanesbæjar, að halda áfram viðræðum við aðila máls sem snýr að nýbyggingu við Selás í Reykjanesbæ.

<>

Bygging hússins hefur verið stopp í rúmt ár eftir að í ljós kom að byggingin stendur tæpum meter of hátt miðað við skipulag.

Málið hefur verið í gangi í kerfinu í langan tíma og voru framkvæmdir við byggingu hússins stöðvaðar með ákvörðun byggingafulltrúa í desember árið 2019, en ekkert hefur verið unnið við bygginguna síðan þá.

Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála sem staðfesti ákvörðun byggingarfulltrúa með úrskurði í júní á síðasta ári.

Í úrskurði nefndarinnar, sem skoða má í heild hér, kemur meðal annars fram að svo virðist sem mistök af hálfu beggja aðila virðast hafa valdið því að málið er komið í þennan farveg, þannig hafi byggingarfulltrúi samþykkt uppdrætti sem gerðu ráð fyrir að húsið væri rúmum meter hærra en deiliskipulag gerir ráð fyrir, eða 7,62 m á hæð í stað 6,3 metrar frá gólfplötu, þ.e. að gólfkótinn væri 13,20 og hæsti kóti 20,82.

Þeir uppdrættir voru hins vegar ekki áritaðir af löggiltum hönnuði og því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og áritun þeirra ekki lögum samkvæmt, segir meðal annars í úrskurðinum.

Sem fyrr segir var erindi eiganda hússins um hækkun hafnað í kjölfar grenndarkynningar, þar sem athugasemdir bárust frá íbúum við sömu götu.

Í fylgigögnum með grenndarkynningunni má þó sjá að í nokkrum tilvikum virðist sem farið hafi verið á svig við gildandi deiliskipulag í hverfinu, en bent er á nokkrar byggingar hvar hæð húsa og þakgerð er ekki í samræmi við skipulagið auk þess sem húsagerðum hafi verið breytt, úr tveggja hæða í einnar hæðar, þannig að lóðir hafi verið hækkaðar um allt að þrjá metra.

Þá kemur fram í umsögn íbúa við götuna að ítrekað hafi verið bent á misræmi í hæðum og að leysa hefði mátt úr málinu með auðveldum hætti á fyrri stigum.

Heimild: Sudurnes.net