Home Fréttir Í fréttum Hvað er malbik? Hvað er klæðing?

Hvað er malbik? Hvað er klæðing?

222
0
Mynd: Vegagerðin

Að undanförnu hefur borið á því að rætt sé um malbik og klæðingu sem eitt og sama fyrirbærið. Svo er þó alls ekki þótt báðar gerðirnar séu svokölluð bikbundin slitlög.

<>

Jafnvel heyrist stundum talað um olíumöl, en sú gerð bikbundinna slitlaga var aflögð með öllu hér á landi fyrir tæpri hálfri öld.

Nauðsynlegt er að gera greinarmun á klæðingu og malbiki, enda er klæðing ódýrt bundið slitlag sem tekur til 90% allra bundinna slitlaga á landinu, mest á umferðarminni vegum.

Malbiksvinna á Hringvegi í Kömbum. Mynd: Vegagerðin

Malbik er blanda þriggja þátta, steinefna, biks (e. bitumen) og íblöndunarefna. Steinefnið gegnir því hlutverki að bera þunga umferðarinnar en bikið bindur steinefnið saman og myndar heild.

Því er mikilvægt að bikið gefi góða bindingu og að styrkur steinefna sé nægur, m.a. til að bera þungaumferð og þola þá síendurteknu áraun sem fylgir notkun nagladekkja.

Malbik er hins vegar tiltölulega dýrt efni, enda framleitt í sérstökum hátæknivæddum blöndunarstöðvum. Algengasta framleiðsluaðferðin er að hita bikið og steinefnin hvort í sínu lagi fyrir blöndun.

Svo er þessum efnum blandað saman í nákvæmum hlutföllum með íblöndunarefnum. Að blöndun lokinni er malbikið flutt heitt þangað sem verkið er unnið, það lagt út 3,5-5,5 sentimetra þykkt á vegstæðið og þjappað/valtað.

Með þjöppun er leitast við að „læsa“ uppbyggingu lagsins ásamt því að tryggja nægjanlegt loftrými á líftíma malbiksins. Því má segja að loftrými sé fjórði mikilvægi þátturinn í uppbyggingu malbiks en loftrýmið tryggir stöðugleika malbiksins og að það haldi formi sínu.

Klæðing er framleidd þannig að bikbindiefni, þynntu eða mýktu, er sprautað í jöfnu lagi á yfirborð vegar og steinefni síðan dreift yfir það. Klæðingin er síðan völtuð og þá þrýstist steinefnið niður í bindiefnið.

Eftir u.þ.b. sólarhring er umframsteinefni svo sópað af klæðingunni. Þessi gerð bundins slitlags er tiltölulega þunn, eða um 1 til 1,5 sentimetrar á þykkt, en þykktin fer eftir því hvaða steinastærð er valin.

Sökum þess að malbik er tiltölulega dýr slitlagsgerð, hefur gengið hægt að auka hlut malbiks á íslenskum þjóðvegum, enda er hægt að leggja margfalt lengri vegklæðingu fyrir sömu upphæð.

Það á bæði við um nýlagnir og viðhald á eldri bikbundnum slitlögum. Þó má segja að stór hluti vega með klæðingu sé kominn yfir þolmörk vegna aukinnar umferðar og álags á vegakerfinu og ætti í raun að vera lagður malbiki sem þolir margfalt meiri umferð en klæðing.

Malbik á sinn líftíma. Með árunum slitnar það óhjákvæmilega af völdum negldra hjólbarða auk þess sem ellimerki koma fram með tímanum. Bikið þornar upp, verður stökkt og endar með því að springa upp og mynda sprungunet.

Þegar ástandið er orðið slíkt er það ávísun á holumyndun og jafnvel víðtækari skemmdir. Ef vel ætti að vera, þyrfti að endurnýja bundið slitlag á Íslandi mun hraðar en mögulegt er að gera í dag.

Yfirborð vega kæmi þá t.d. betur undan vetri og sífelldum frostþíðu sveiflum á vorin. Að vonum leiða slíkar skemmdir til neikvæðrar umræðu um íslenskt malbik og vegklæðingu.

Höfundar greinar:
Birkir Hrafn Jóakimsson er verkfræðingur hjá Vegagerðinni
Pétur Pétusson er ráðgjafi í vegagerð hjá PP-ráðgjöf

Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. mars 2021

Heimild: Vegagerðin.is