Heimildir til fjöldaskráningar lögheimilis eða aðseturs fólks í íbúðarhúsnæði verða endurskoðaðar, lögfesta skal skráningarskyldu leigusamninga og skilgreina mismunandi tengundir útleigu.
Ítarlega skal kortleggja óleyfisbúsetu en meta má hvort og í hvaða mæli heimila tímabundna aðsetursskráningu og búsetu í atvinnuhúsnæði sem uppfyllir kröfur um öryggi.
Þetta er meðal þeirra tillagna frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Ráðherra fól stofnuninni að gera tillögur að úrbótum í brunavörnum íbúðahúsnæðis í kjölfar bruna við Bræðraborgarstíg í júní 2020.
Þær byggja á niðurstöðu vinnuhóps Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, rannskóknar stofnunarinnar á brunanum og á vinnu samráðsvettvangs um brunavarnir. Ráðherra ætlar að skipa stýrihóp til að fylgja tillögunum eftir.
Tryggt skal að íbúðarhúsnæði verði ekki tekið í notkun án þess að gerð hafi verið öryggisúttekt, fyrir eða samhliða lokaúttekt á því, og byggingafulltrúi og slökkviliði verði ætlaðar sérstakar stöðuskoðanir vegna brunavarna.
Einnig er lagt til að heimildir til handa slökkviliði og byggingarfulltrúa að leggja á stjórnvaldssektir verði endurskoðaðar vegna brota á lögum.
Einnig verði rýmkaðar heimildir þeirra til aðgangs að íbúðarhúsnæði til eftirlits og að lög um brunatryggingar verði endurskoðuð í þeim tilgangi að hvetja til brunavarna.
Heimild: Ruv.is