Reykjavíkurborg segir ekkert til í því að málinu hafi verið hagrætt þegar Þorgrímur Þráinsson fékk leyfi fyrir byggingu nýs bílskúrs við heimili sitt eftir að kvörtun þess efnis barst frá ósáttum nágrönnum.
Kröfu eigenda þriggja húsa næst Tunguvegi 12 um byggingarleyfi fyrir bílskúr þar á lóðinni hefur verið hafnað af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Nágrannarnir sögðu Reykjavíkurborg ekki hafa „viðhaft nægjanlega gagnrýna hugsun í störfum sínum og ekki gætt að hagsmunum allra aðila málsins,“ segir í umfjöllun nefndarinnar.
„Hafi leyfishafi notið velvildar vegna starfa sinna og kunningsskapar innan borgarinnar,“ segir enn fremur.
Kærendurnir sögðu bílskúrinn meðal annars verða of háan og ekki falla inn í götumyndina. Gras á þakinu væri ekki í samræmi við neinar byggingar í hverfinu.
Reykjavíkurborg hafnaði öllum efnislegu rökum kærendanna og einnig því að hafa gengið sérstaklega erinda umsækjandans um leyfið, sem er Þorgrímur Þráinsson rithöfundur
„Fullyrðingum um að málinu hafi verið hagrætt í þágu umsækjanda sé alfarið vísað á bug enda hafi kærendur ekki fært fram rök því til stuðnings,“ segir um athugasemdir borgarinnar í umfjöllun úrskurðarnefndarinnar sem segir ekki liggja „fyrir þeir form- eða efnisannmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar“.
Þorgrímur lét ekki til sín taka við meðferð kærumálsins en stefnir að því að hefja framkvæmdir í mars.
Heimild: Frettabladid.is