Eldgos á Reykjanesskaga rennir enn frekari stoðum undir þá skoðun Ara Trausta Guðmundssonar, þingmanns Vinstri grænna og jarðvísindamanns, að náttúruvá sé raunveruleg ógn á svæðinu og þar með við mögulegan flugvöll í Hvassahrauni.
Ari Trausti segir í samtali við mbl.is rangt að mjög lítil hætta sé á eldgosi í nágrenni við líklega legu Hvassahraunsflugvallar, eins og haldið var fram á sínum tíma í skýrslu Rögnunefndar.
Hvassahraun hefur verið talinn með heppilegustu staðsetningum fyrir nýjan innanlandsflugvöll ef flugvöllurinn í Vatnsmýri væri tekinn undir byggð. Framkvæmdin myndi í heild kosta um 44 milljarða króna, eins og segir hér.
Mat sem stenst ekki
Í skýrslunni er vísað til áhættumats jarðvísindamanna, sem er svohljóðandi:
„Miklar líkur eru á að aldir líði áður en Krýsuvíkurkerfið rumskar næst. Búast má við að næsta gosskeið á Reykjanesskaga hefjist í Brennisteinsfjöllum. Það gæti orðið eftir um eina öld. Hraun þaðan er ekki líklegt til að ógna flugvallarstæðinu í Hvassahrauni. Mjög litlar líkur eru á að sprungur og misgengi verði til vandræða á flugvallarstæðinu næstu aldir. Miðað við tímabil gosskeiða í þeim er langt í það næsta, jafnvel yfir 300 ár.“
„Ég hef talað fyrir því að þetta mat standist ekki,“ segir Ari Trausti. Þingmaðurinn gerir ráð fyrir að náttúruvársérfræðingar Veðurstofunnar, Almannavarna og Jarðvísindastofnunar annist nýtt áhættumat, sem tengist nýju mati fyrir suðvesturhornið og það verði tekið gilt fram yfir matið í þessari skýrslu.
Tvær leiðir færar í staðinn
Í ljósi þess að nýtt áhættumat gæti teflt í tvísýnu stefnu um að leggja nýjan innanlands- eða alþjóðaflugvöll í Hvassahrauni, segir Ari Trausti að Reykjavíkurborg séu tvær leiðir færar til að losna við flugvöllinn úr Vatnsmýrinni.
„Ef Hvassahraunsflugvöllur telst ásættanlegur í nýju áhættumati, er hann útgönguleiðin, en ef ekki hver er hún þá? Hún gæti verið sú að borgin segði einfaldlega: Reykjavíkurflugvöllur verður áfram í hluta Vatnsmýrar, en honum verður breytt og hann minnkaður í stuttbrautarflugvöll,“ segir Ari Trausti.
Hvort sem er hafi þegar verið samþykkt að gera flugvellina á Egilsstöðum og Akureyri að aðalvaraflugvöllum landsins, þannig að Vatnsmýrin hefur þegar misst þann sess.
Heimild: Mbl.is