Alvarlegar athugasemdir
Um klukkan hálf þrjú þann 3. mars í fyrra fékk lögregla tilkynningu um alvarlegt vinnuslys við Sunnukrika 3 í Mosfellsbæ þar sem menn á vegum Arnarhvols og undirverktakans Inga og son, unnu að byggingu íbúða- og heilsugæsluhúss.
Burðarvirki gaf sig og tveir menn féllu niður af annarri hæð ásamt níðþungum plötum. Vinnueftirlitið kom strax á staðinn og hefur nú skilað skýrslu. Þar eru gerðar alvarlegar athugasemdir við verkferla og öryggi starfsmanna.
Féllu niður 8 metra
Þriðji maðurinn slapp naumlega. Hann hafði stýrt krana, án réttinda, sem hífði plöturnar upp og hinir tóku á móti. Mennirnir sáu fljótt að plöturnar voru skakkar á stoðunum og þegar þeir ætluðu að athuga það betur gáfu þær sig og mennirnir tveir féllu 8 metra niður á steypt gólf. Annar varð undir plötunum og lést á slysstað en hinn slasaðist alvarlega.
Reglur og verkferlar virðast hafa verið þverbrotnar, sem orsakað slysið.
Þaulreyndir verkamenn með margra ára reynslu
Engin áfangaúttekt hafði verið gerð á verkinu og engin gögn lögð fram til byggingafulltrúa eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, eins og lög kveða á um. Öryggis- og heilbrigðisáætlun Arnarhvols var ekki til þegar slysið varð, en var send rafrænt til Vinnueftirlitsins viku síðar eftir nokkrar ítrekanir. Ingi og son sendi sína á sama tíma, en hún var metin ófullnægjandi.
Samskipti milli vakta voru ekki nægileg, súlur undir plötunum voru misháar, undirstaða stálbita ekki nægjanleg og hvorki tékklista né leiðbeiningum frá framleiðanda hafði verið fylgt. Þá voru mennirnir ekki með fallvarnarbelti við vinnu sína.
Maðurinn sem lést var á sextugsaldri og hinn slasaði um fimmtugt. Báðir voru þaulreyndir verkamenn frá Póllandi með 15 ára reynslu og launþegar Inga og son.
Heimild: Ruv.is