Köfunarþjónustan gekk í byrjun mars frá kaupum á fyrirtækinu KrÓla ehf. ásamt öllum lager fyrirtækisins.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá Köfunarþjónustunni. Þar segir að markmið kaupanna sé að auka þjónustuframboð Köfunarþjónustunnar fyrir hafnir landsins.
„Við höfum lengi haft augastað á KrÓla, vörurnar sem þeir bjóða eru þær bestu á markaðnum. Viðskiptavinir KrÓla eiga ekki að finna fyrir neinum óþægindum af þessum breytingum.
Við tökum við öllum skuldbindingum fyrirtækisins gagnvart viðskiptavinum þeirra og höldum áfram að veita þá framúrskarandi þjónustu sem félagið er þekkt fyrir.“ Segir Helgi Hinriksson framkvæmdastjóri Köfunarþjónustunnar, í tilkynningu.
Í tilkynningunni kemur fram að KrÓli ehf, eða eigandi þess Kristján Óli Hjaltason, hefur í fjóra áratugi sérhæft sig í þjónustu við hafnir landsins með flotbryggjum.
Auk flotbryggja, öryggisbúnaðar og öldubrjóta selur félagið ýmsan búnað tengdan höfnum svo sem fingur til viðlegu við flotbryggjur, tenglastólpa fyrir lýsingu og landtenginu báta, fenderlista til að verja báta, landganga ásamt öllum búnaði sem þarf til uppsetninga of þjónustu á flotbryggjum.
Með kaupunum stefnir Köfunarþjónustan á að víkka út þjónustu við hafnir landsins sem m.a. er að finna í vörumerkjum KrÓla ehf.
Heimild: Frettabladid.is