Home Fréttir Í fréttum Fann skammbyssu í húsgrunni: „Fyndið þangað til að sérsveitin mætti“

Fann skammbyssu í húsgrunni: „Fyndið þangað til að sérsveitin mætti“

689
0
Tveir sérsveitarmenn mættu á svæðið og hirtu byssuna. Þeir ætla að þrífa hana og kanna málið nánar. Fréttablaðið/Aðsend

Guðmund­ur Ari Sig­ur­jóns­son, bæj­ar­full­trúi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar á Seltjarn­ar­nesi, var í miðjum framkvæmdum við Miðbraut á Seltjarnarnesi þegar hann fann skammbyssu í húsgrunninum.

<>

„Við fundum skammbyssu í skurði þegar við vorum að moka fyrir dreni í kringum húsið. Ég hélt fyrst að þetta væri dót en svo var þetta svolítið þungt og úr stáli,“ segir Guðmundur í samtali við Fréttablaðið.

Hann segist ekki hafa áttað sig almennilega á því hvað þetta væri alvarlegt mál þar til tveir vopnaðir sérsveitarmenn mættu á svæðið og hirtu byssuna.

„Ég hringdi bara í morgunkaffinu í lögregluna og sagði: „Heyrðu, við fundum hérna skammbyssu í húsgrunni.“ Þegar ég sagði þetta upphátt þá fattaði ég hvað þetta var ótrúlegt,“ segir Guðmundur og hlær.

„Mér fannst þetta fyndið þangað til að sérsveitin mætti. Þá var þetta orðið óþægilegt,“ bætir hann við.

Guðmundur telur byssuna hafa verið í grunninum frá sjöunda áratugnum, mögulega frá 1963 þegar grunnur var lagður fyrir húsið. Myndir/Aðsendar

Aðspurður segist Guðmundur Ari ekki vita neitt um uppruna vopnsins en segir margar kenningar á lofti.

„Maður veit svo sem ekki hvaðan þessi byssa kemur. Hér finnast stundum herminjar enda var herinn með búðir hér á nesinu. Vinir mínir hafa verið að kasta fram kenningum um að þetta gæti verið byssa úr einhverju óleystu morðmáli.“

Nefndir hann morðmál frá árinu 1968, þegar leigubílstjórinn Gunnar Tryggva­son var skotinn til bana í bíl sínum við Lauga­læk.

Ári síðar fann lögreglan byssu, sem hún taldi hafa verið notuð við morðið, í hanskahólfi annars leigubíls. Málið er enn óleyst en lögreglan sagði í fyrra að tilefni væri til að hefja frumrannsókn á því máli.

Guðmund­ur Ari. Fréttablaðið/Aðsend

„Þá var notuð skammbyssa, ekkert ólík þessari. Ég hélt í smástund að ég væri kominn með morðvopnið en ég held reyndar að það hafi fundist í þessu máli,“ segir Guðmundur Ari.

Heimild: Frettabladid.is