Home Fréttir Í fréttum Starfshópi ætlað að greina ástand Fossvogsskóla

Starfshópi ætlað að greina ástand Fossvogsskóla

98
0
Mynd: Ruv.is
Starfshópur sérfræðinga frá verkfræðistofunni Verkís, umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og foreldrafélagi Fossvogsskóla hefur verið myndaður vegna myglu í skólanum.

Í gær var haldinn fundur í skólaráði ásamt fulltrúum skóla- og frístundasviðs borgarinnar, umhverfis- og skipulagssviðs, frístundaheimilis Fossvogsskóla, Verkís, sérstökum ráðgjafa Foreldrafélags Fossvogsskóla og fulltrúa frá Samfok, samtökum foreldra grunnskólabarna í Reykjavík.

<>

Aðgerðir til að tryggja heilsusamlegt líferni

Starfshópnum er ætlað að rýna í fyrirliggjandi sýnatökur, framkvæmdir og niðurstöður. Þar næst metur hann þörf á frekari sýnatökum og aðgerðir í skólanum svo tryggja megi heilsusamlegt líferni, líkt og fram kemur í tilkynningu frá Ingibjörgu Ýr Pálmadóttur skólastjóra.

Jafnframt skal starfshópurinn gera verkáætlun um þrýstiprófun á rakasperrum í þeim hluta skólans sem nefndur er Vesturland. Eins skal gera áætlun um þær framkvæmdir sem þörf er á í Austurlandi og Meginlandi.

Líðan starfsmanna og barna könnuð

Skóla- og frístundasvið kannar líðan starfsmanna og barna auk þess sem fulltrúi sviðsins hefur þegar rætt við foreldra barna sem finna fyrir einkennum.

Heilbrigðisstarfsfólk skal fylgjast með þeim hópi barna svo leggja megi faglegt mat á heilsu þeirra og skoðað verður hvernig komið verði til móts við náms- og félagslegar þarfir þeirra.

Reglulega verða gefnar upplýsingar um framvindu mála en boðað hefur verið til upplýsingafundar í næstu viku. Framhaldsfundur skólaráðs verður haldinn eftir tvær vikur með sömu fulltrúum á fundinum í gær.

Þar verða næstu skref ákveðin, eftir að farið hefur verið yfir vinnu starfshópsins og aðrar þær upplýsingar sem aflað hefur verið.

„Teymið þarf að hafa hraðar hendur,“ segir Ingibjörg Ýr Pálmadóttir, skólastjóri í samtali við fréttastofu. Hún segir öll gögn liggja fyrir og að allir hafi aðgang að þeim og kveðst bjartsýn á að vel gangi.

Undrandi á að skólinn verði ekki rýmdur

Sigríður Ólafsdóttir, móðir barns við Fossvogsskóla, segir í samtali við fréttastofu að um 50 börn finni fyrir óþægindum og sum séu alvarlega veik. Svo mjög að þau hafist ekki við í byggingunni.

„Við foreldrar erum svolítið hissa á því að skólinn sé ekki rýmdur á meðan á þessu stendur. Þá spyr maður sig hvað þarf eiginlega til að skóli sé rýmdur eða rýmum í honum lokað.“

Sigríður rifjar upp að síðustu viku hafi verið rýmd álma í Álfhólsskóla. „Ég get ekki séð að nein úrræði hafi verið í boði fyrir þennan hóp og þeim áfram boðið að vera í sömu rýmum og hafa verið að gera þau veik,“ segir Sigríður.

Ingibjörg Ýr segir einn af möguleikunum vera að láta rýma skólann en ákvörðun um það þurfi að koma frá skólayfirvöldum Reykjavíkurborgar í samráði við skólann.

Fyrir tveimur árum var skólinn rýmdur að stórum hluta um þriggja mánaða skeið og þá var ekið með í börnin í Laugardal þar sem kennt var.

„Ég veit að unnið er eins vel og hægt er og mikil samstaða ríkir að koma málinu í góðan farveg,“ segir Ingibjörg Ýr.

Heimild: Ruv.is