Fjölmörg alvarleg slys hafa orðið á Vesturlandsvegi um Kjalarnes á undanförnum árum. En nú hefur Vegagerðin hafið framkvæmdir sem miða meðal annars að því að fækka þessum slysum.
Framkvæmdin gengur út á að breikka Vesturlandsveg á níu kílómetra kafla milli Varmhóla og Hvalfjarðarvegar.
Samhliða breikkuninni verður vegtengingum fækkað og í staðinn gerðir hliðarvegir ásamt reiðstígum og stígum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
„Það er bara löngu orðið tímabært og hér hafa orðið mörg slys og þetta bætir umferðaröryggi all verulega,“ segir Anna Elín Jóhannsdóttir, verkfræðingur hjá Vegagerðinni.
Verða þá akstursleiðir aðskildar?
„Já þær verða aðskildar.“
Gott malbik
Það stendur til að setja þrjú hringtorg á þessum kafla, óttist þið ekkert að það hægi á umferð?
„Nei alls ekki. Hringtorgin bæta umferðaröryggið, bílar koma akandi hratt að og hægja á sér, en svo auka þeir hraðann aftur.“
Þá segir Anna að hringtorgin leysi af hólmi um 30 vegamót sem eru nú inn á Vesturlandsveg á þessum kafla, en þau vegamót hafi valdið töluverðri slysahættu.
Það hefur verið mikil umræða um malbik, sérstaklega hér, er verið að nota besta malbik sem völ er á?
„Já að sjálfsögðu. Það er gerð krafa í gögnunum um að verktaki skaffi efni sem er gæðavottað og samkvæmt stöðlum,“ segir Anna.
Heildarkostnaður við verkið er 6,5 milljarðar króna. Fyrsta og öðrum áfanga verksins á að vera lokið árið 2023.
Heimild: Ruv.is