Home Fréttir Í fréttum Ætla að reisa um 800 íbúðir á tveimur reitum

Ætla að reisa um 800 íbúðir á tveimur reitum

266
0
Mynd: Skjáskot af Ruv.is
Reykjavíkurborg hefur gengið frá samningum sem ganga út á að um eða yfir 800 íbúðir verði reistar á Heklureitnum við Laugaveg og á Orkureitnum við Suðurlandsbraut. Borgarstjóri segir að þessir samningar séu til marks um það hversu mikill áhugi sé á uppbyggingu á lóðum meðfram borgarlínunni.

Samningarnir, sem eru við eigendur lóðanna tveggja, voru samþykktir í borgarráði í síðustu viku. Þeir ganga út á að lóðarhafar skuldbinda sig til þess að byggja þar íbúðir. Á Orkureitnum sem er á milli Suðurlandsbrautar og Ármúla er gert ráð fyrir að fjögurra til átta hæða nýbyggingar rísi.

<>

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi gerir ráð fyrir 436 íbúðum og rúmlega 6.000 fermetrum af atvinnuhúsnæði. Orkuhúsið, gamla Rafmagnsveituhúsið, verður áfram á lóðinni. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Guðjón Auðunsson forstjóri Reita skrifuðu undir samninginn í dag.

Og á Heklu-reitnum við Laugaveg er gert ráð fyrir allt að 400 íbúðum með verslun og þjónustu á jarðhæð. Á báðum lóðum skuldbinda eigendur þeirra sig til þess að hluti íbúðanna verði leiguíbúðir, stúdentaíbúðir eða íbúðir fyrir aldraða. Lóðarhafar greiða svo borginni fyrir breytta nýtingu á lóðunum.

„Þetta mun klárlega gerast í áföngum“

„Þetta eru reitir sem eru til marks um það að áhuginn meðfram borgarlínunni, sem kemur til með að liggja alveg frá Kvosinni og upp á Ártúnshöfða, er að aukast. Þarna sjáum við fyrir okkur mjög fjölbreytta og spennandi uppbyggingarmöguleika, sem er svolítið það sem koma skal meðfram þróunarásnum frá vestri til austur og frá austri til vesturs í borginni,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.

Mun þá bílaumboðið Hekla flytja?

„Ég á von á því að það finni sér nýjan stað. Allt mun þetta þó taka tíma. Þetta eru býsna stórar framkvæmdir og margar íbúðir sem eiga að rísa þarna. Þannig að þetta mun klárlega gerast í áföngum.“

Hvenær heldur þú að framkvæmdir hefjist þarna?

„Það er í rauninni ekki í höndum borgarinnar að ákveða það. En við erum búin að leggja þessar línur með uppbyggingaraðilunum. Þeir eru áhugasamir að fara af stað. Næsti áfangi er að skipulagið verði kynnt og að við fáum viðbrögð á það og samþykkjum það. Og þá er hægt að fara að teikna, grafa og byggja,“ segir Dagur.

Heimild: Ruv.is