Home Fréttir Í fréttum Harpa sýknað af bótakröfu ÍAV

Harpa sýknað af bótakröfu ÍAV

321
0
Mynd: Haraldur Guðjónsson

ÍAV taldi að Harpa ohf. hefði ekki virt rétt sinn til stýriverktöku við byggingu bílastæðahúss undir húsinu.

<>

Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. og Situs ehf. voru með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir helgi sýknuð af kröfu Íslenskra aðalverktaka hf. (ÍAV) um viðurkenningu á skaðabótakröfu. Dómurinn taldi að krafa félagsins væri fyrnd.

Krafan var byggð á því að ÍAV hefði átt rétt til sýniverktöku við byggingu Hörpu en sá réttur hefði ekki verið virtur.

Til vara var byggt á því að við framsals fasteigna á Austurbakka 2, til Stólpa III ehf., hefði ekki verið gætt að því að setja nýjan skuldara í sinn stað gagnvart ÍAV með þeim afleiðingum að réttur til stýriverktöku var ekki virtur.

Taldi ÍAV að félagið hefði átt samningsbundin réttindi til byggingar bílastæða undir Hörpunni en sá réttur hefði verið brotinn. Um var að ræða bílastæði á reitum 1 og 2 á matshluta átta.

Samkvæmt rammasamningi sem var gerður árið 2006 átti ÍAV að hafa umsjón með byggingu verkefna sem samningurinn náði til, fá greiddan allan byggingar-, aðstöðu- og stjórnunarkostnað auk 11% álagningar.

Önnur atrenna ÍAV
Það er eflaust flestum í fersku minni að þegar efnahagshrunið skall á hægðist mjög á framkvæmdum við Austurbakka 2 og féll ÍAV með samningum frá ýmsum réttindum samkvæmt rammasamningnum.

Var gripið til hinna ýmsu samninga til að halda verkefninu á floti. Ekki gefst færi á að telja þá alla upp hér en málsatvikalýsing málsins er ekki nema átta síður.

Í maí 2013 sendu ÍAV bréf til stefndu í málinu til að ítreka að réttindi sín til framkvæmdanna yrðu virt þrátt fyrir framsöl samkvæmt samningunum.

Móttakendur bréfanna töldu á móti að ekki hefði verið nauðsyn til að leita samþykkis ÍAV við framsalið. Framsalið átti sér stað 2014 og var réttinda ÍAV ekki getið.

Í febrúar 2017 stefndi ÍAV móttakanda byggingarreits 1, það er Reykjavík Development ehf. vegna málsins, til greiðslu bóta vegna málsins.

Í Hæstarétti árið 2019 var félagið sýknað en rétturinn taldi að sýniverktakan hefði verið kröfuréttarlegs eðlis og ekki ígildi kvaðar á lóðinni. Þótt Harpa og Sítus hefðu getað framselt lóðina hefðu þeir ekki getað losnað undan skyldum við ÍAV. Eftir að sú niðurstaða lá fyrir stefndi ÍAV Hörpu og Sítusi.

Krafan fyrnd
Að mati dómsins lá fyrir að Situs hefði ekki tekið á sig umræddar skyldur og að félagið gæti ekki bakað sér bótaskyldu gagnvart ÍAV, af ýmsum ástæðum sem raktar eru í dóminum, þótt réttindi verktakans hafi farið forgörðum.

„Réttarstaða stefnda, Hörpu ohf., gagnvart [ÍAV] er önnur en stefnda Situsar ehf., því ótvírætt er að sá málsaðili telst, þá sem ótvírætt beinn arftaki Portusar ehf. og Austurhafnar-TR ehf., hafa orðið skuldbundinn gagnvart [ÍAV] með hliðsjón af rammasamningum frá 2006 og framangreindum viðaukasamningi nr. 7 frá 2009,“ segir í dóminum.

Harpa hefði ekki, að mati dómsins, getað vikið sér undan efnaskyldum gagnvart ÍAV á þeim grunni að félaginu hefði verið það ókleift við breytt eignarhald á fasteigninni.

Þvert á móti hefði Hörpu verið skylt að tryggja að réttindi ÍAV færi ekki forgörðum. Af þeim sökum var það mat dómsins að Harpa hefði bakað sér skaðabótaskyldu.

Dómurinn féllst hins vegar á það með Hörpu að fyrningingarfrestur kröfunnar væri fjögur ár. Sá frestur hefði byrjað að líða í apríl 2013 og stefna fyrra málsins, gagnvart Reykjavík Development, hefði ekki rofið þann frest.

Það hefði fyrst gerst með stefnu árið 2020 en þá hefði krafan þegar verið fyrnd. Af þeim sökum var Harpa sýknað. Málskostnaður milli aðila féll niður.

Heimild: Vb.is