„Við leggjum til að áformin verði endurskoðuð og við erum með ákveðna tillögu um ódýrara hraðvagnakerfi. Við höfum lagt fram tillögu um svokallað BRT-light (e. Bus Rapid Transit) og það er allt að fimm sinnum ódýrara heldur en Borgarlínan í þeirri mynd sem hún er núna. Okkar tillaga gerir nánast sama gagn og er laus við ýmsa ókosti.“
Þetta segir Þórarinn Hjaltason, talsmaður hópsins Áhugafólk um samgöngur fyrir alla (ÁS), í samtali við mbl.is. ÁS er hópur sem berst fyrir bættum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu.
Í tilkynningu segist hópurinn vilja að samgöngur verði greiðar og öruggar fyrir alla ferðamáta auk þess sem að þær verði gerðar skilvirkari og hagkvæmari með tilliti til afkastagetu samgöngukerfisins og umhverfismála.
ÁS fagnar áfanganum sem náðist með samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins en gerir alvarlegar athugasemdir við ýmis atriði.
Sérakreinar verði styttri og hægra megin
Telja þau að Borgarlínan sé allt of dýr miðað við þann takmarkað ávinning sem hlýst af henni. Sérrými sem henni verður helgað, stundum á miðjum götum, sé of mikið og skerði almenna umferð. Það muni leiða til enn frekari umferðartafa.
Tillaga ÁS gerir ráð fyrir að BRT-light vagnarnir gangi á 10 mínútna fresti á álagstímum en 15 mínútna fresti aðra hluta dagsins.
Borgarlína á að ganga á 7,5 mínútna fresti á álagstímum. Þá leggja þau til að sérakreinar fyrir vagna verði hægra megin á akraut en ekki á miðjum götum og að slík rými verði mun færri eða styttri.
Mislæg gatnamót frekar en stokkar
ÁS varar við þeim „verulegu fjárhæðum sem ætlað er að verja í lagningu gatna í stokk.“ Ávinningur slíkra götustokka sé verulega takmarkaður miðað við mislæg gatnamót.
Hópurinn telur að öll aukagjöld á höfuðborgarsvæðinu séu óásættanleg, hvort heldur í formi flýtigjalda allan sólarhringinn eða sérstaks aukagjalds á álagstíma.
Aukagjöld fyrir umferð séu þá ásættanleg í ákveðnum tilvikum, líkt og á væntanlegri Sundabraut enda um kostnaðarsama framkvæmd að ræða.
Þá gerir hópurinn athugasemd við að fyrirhuguð Borgarlína verði lögð um mörg viðkvæm svæði, gróin hverfi og miðborg Reykjavíkur án þess að nokkur grein hafi verið gerð hvernig það verði gert.
Heimild: Mbl.is