Home Fréttir Í fréttum Rétttrúnaðarkirkjan fær enn lengri frest hjá borginni

Rétttrúnaðarkirkjan fær enn lengri frest hjá borginni

227
0
Svona lítur teikning af fyrirhugðri rétttrúnaðarkirkju út. MYND/ARKITEO

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær að veita Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni á Íslandi tveggja ára viðbótarfrest til að hefja framkvæmdir við byggingu kirkju og safnarhúss á lóðunum við Bræðraborgarstíg og Bakkastíg.

<>

Frestur var gefin í tvö ár til viðbótar um leið til að ljúka framkvæmdum á lóðinni sem er 780 fermetrar að stærð.

Árið 2019 fékk kirkjan lokafrest með fjögurra ára framlengingu á framkvæmdum.

Rússneska rétttrúnaðarkirkjan – Safnaðar Moskvu-Patriarkatsins – fékk úthlutað lóð til leigu þann í október 2008 fyrir byggingu kirkju og var gerður lóðarleigusamningur í apríl 2011 um lóðirnar Bræðraborgarstíg 2 og Bakkastíg 8, við Mýrargötu í Reykjavík.

Vegna breytinga á deiliskipulagi í febrúar 2014 tafðist hönnun kirkjunnar og síðar kom í ljós að breyta þurfti deiliskipulagi vegna breyttrar legu byggingarreits fyrir kirkjuna. Á því byggði fresturinn árið 2019.

Enn voru gerðar breytingar í borgarráði í nóvember síðastliðinum og þá á umfangi byggingarinnar og hæðir kirkjunnar voru minnkaðar. „Því er ljóst að skammur tími var til stefnu,“ segir í fundargerð frá í gær.

Ósk um enn frekar frest er þó aðallega byggð á áhrifum heimsfaraldur af völdum Covid-19 sem hefur tafið verkefnið og haft áhrif aðkomu fjárfesta að verkefninu.

MYND/ARKITEO

Árið 2013 vildu íbúasamtök Vesturbæjar að fundin yrði önnur lóð, byggingin yrði allt of stór og afstýra þyrfti skipulagsslysi þar sem kirkjan yrði í ósamræmi við nærliggjandi byggð. Ýmsar aðrar athugasemdir bárust skipulagsyfirvöldum þar sem framkvæmdin var gagnrýnd, aðallega vegna útlits og stærðar kirkjunnar.

Svona voru fyrstu teikningar af kirkjunni en þótti hún of stór á alla kanta og vakti sterk viðbrögð íbúa. Tölvugerð mynd/Reykjavíkurborg

Heimild: Frettabladid.is