Home Fréttir Í fréttum Hafa ekki fengið greitt í 3 mánuði fyrir Kirkjusand

Hafa ekki fengið greitt í 3 mánuði fyrir Kirkjusand

273
0
Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Íslenskir aðalverktakar segja að ástæða þess að samningi 105 miðborgar var rift sé sú að upp hafi komið ágreiningur um skilning á ákvæðum verksamnings.
Fyrirtækið segist ekki hafa fengið greitt fyrir verkið seinustu 3 mánuði. Þá hafi verkkaupi ekki tekið tillit til heimsfaraldursins við ákvörðun verktíma og viðbótarkostnaðar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. ÍAV taldi að verkkaupi ætti að greiða fyrir hluta verksins sem voru utan samnings en einnig að taka ætti tillit til ýmissa utanaðkomandi þátta, einkum Covid-19, við ákvörðun verktíma og viðbótarkostnaðar.

<>

ÍAV hafi ekki fengið greitt fyrir vinnu við verkið frá því í nóvember og því hafi fyrirtækið boðað verkstöðvun í janúar en fallið frá því.

„Ástæður þeirrar stöðu sem upp er komin er fjarri því að vera tregða ÍAV til þess að klára verkið með sóma enda hefur ÍAV alltaf lagt mikið uppúr því að viðskiptavinir séu ánægðir með þjónustu félagsins eins og orðspor þess ber merki um.

Ágreiningur og tafir sem Íslandssjóðir/105 Miðborg, nefna að sögn blaðsins sem ástæður riftunar eru að mati ÍAV fjarri því að vera lögmætar.

Tjón ÍAV vegna aðgerða verkkaupans er verulegt, bæði vegna verkkostnaðar sem ekki hefur fengist greiddur og einnig vegna þess orðspors sem félagið hefur byggt upp í áratugi.

ÍAV bauðst til að gera samkomulag um lyktir verksamningsins í ljósi samstarfsörðugleika án nokkurra skilyrða skömmu áður en verkkaupi ákvað að fara fram með riftun.

Því var hafnað. Tilgangur með riftuninni virðist því vera sá að valda verktakanum sem mestu tjóni og halda áfram að komast undan greiðslu verkkostnaðar og skuldbindingum þar um.

Við riftun verksamnings hefur ÍAV ekki annan kost en að hætta að efna samninginn af sinni hálfu og leita réttar síns til uppgjörs og bóta,“ segir í tilkynningunni.

ÍAV hefur þegar byggt tvö fjölbýlishús og búið er að steypa upp ríflega 7.000 fermetra skrifstofuhúsnæði á Kirkjusandi.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins bera verkkaupar fyrir sig að miklar tafir hafi orðið á framkvæmdum og að gallar hafi verið á húsbyggingunum.

Er því haldið fram að gengið verði á verktryggingu verktakans hjá tryggingafélaginu VÍS vegna þessa.

VÍS segir óvíst að skilyrði þess séu uppfyllt. Sigurður Ragnarsson forstjóri ÍAV, vildi ekki veita viðtal vegna málsins að svo stöddu en segir að fyrirtækið ætli að bregðast við.

105 Miðborg er hluti af Íslandssjóðum sem eru í eigu Íslandsbanka. Í tilkynningu frá bankanum til fréttastofu kemur fram að búið sé að semja við annan verktaka um að ljúka framkvæmdunum.

Heimild: Ruv.is