Home Fréttir Í fréttum Juku hlutafé um 721 milljón

Juku hlutafé um 721 milljón

219
0
Aðsend mynd

Hlutafé félagsins Apartnors var nýlega aukið um 721 milljón en félagið á 80% hlut í lúxusíbúðaverkefni í Austurhöfn.

<>

Hlutafé félagsins Apartnor ehf., sem er að mestu í eigu fjárfestanna Eggerts Þórs Dagbjartssonar, Hreggviðs Jónssonar og tengdra aðila og á 80% hlut í fasteignafélaginu Austurhöfn ehf., var aukið um 721,1 milljón króna undir lok síðasta árs. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins til fyrirtækjaskrár.

Austurhöfn ehf. er, líkt og nafnið gefur til kynna, félag utan um fasteignaverkefni í Austurhöfn þar sem 71 lúxusíbúð, auk verslunar- og skrifstofuhúsnæðis, hefur verið reist við hlið Hörpu.

Húsnæðið er alls um átta þúsund fermetrar en fasteignafélagið Reginn hefur þegar fest kaup á verslunar- og skrifstofuhúsnæðinu sem alls er 2.700 fermetrar.

Auk þess að vera aðallánveitandi Austurhafnarverkefnisins, á Arion banki tæplega 20% hlut í verkefninu. Umsjónaraðili verkefnisins, Íslenskar fasteignir ehf., á jafnframt um 0,5% hlut í því. Arion banki, Eggert og Hreggviður eru jafnframt meðal fjárfesta í byggingu fimm stjörnu hótels sem einnig er reist á svæðinu við hlið Hörpu sem verður undir merkjum Marriott Edition. Arion banki er sömuleiðis aðallánveitandi hótelframkvæmdanna.

Upphaflega gerðu áætlanir ráð fyrir að íbúðirnar í Austurhöfn færu í sölu í byrjun árs 2019 og að Reginn fengi sinn hluta húsnæðisins afhentan sumarið 2019. Framkvæmdirnar hafa hins vegar tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir.

Þar hefur COVID-19 heimsfaraldurinn sett stórt strik í reikninginn og hefur meðal annars afhendingu á innréttingum frá Ítalíu seinkað vegna þessa. Þá stóð til að hótelið myndi verða opnað sumarið 2020 en líkt og gefur að skilja hefur heimsfaraldurinn slegið þeim áformum á frest.

Íbúðirnar metnar á 13 milljarða

Síðastliðið haust voru íbúðirnar loks auglýstar til sölu. Alls eru íbúðirnar metnar á þrettán milljarða króna, miðað við uppsett verð. Meðalfermetraverð, af þeim íbúðum sem verð er gefið upp, nemur tæplega 1,2 milljónum króna.

Þetta má sjá á heimasíðu Austurhafnarverkefnisins en verð fyrir íbúð á sjöttu hæð, svokallaða „penthouse” íbúð, er ekki gefið upp opinberlega. Því styðst Viðskiptablaðið við meðalfermetraverð á þeim íbúðum þar sem verð er gefið upp, við útreikning á heildarverðmæti íbúðanna.

Uppsett verð íbúðanna er á bilinu 59 milljónir króna (49,4 fermetra íbúð með miðbæjarsýn) til 345 milljónir króna (213 fermetra íbúð á 5. hæð með sjávarútsýni).

Fermetraverð ódýrustu eignarinnar er því tæplega 1,2 milljónir en fermetraverð dýrustu eignarinnar er ríflega 1,6 milljónir króna. Líkt og fyrr segir er ekki gefið upp verð á „penthouse” íbúðunum, sem líkt og nafnið gefur til kynna eru staðsettar á efstu hæð byggingarinnar, og má því ætla að fermetraverð íbúðanna á efstu hæðinni sé enn hærra.

Tæplega helmingur íbúðanna er í stærri kantinum, eða á bilinu 170-360 fermetrar. 34% af íbúðunum eru á bilinu 100-150 fermetrar og þá eru um 20% íbúðanna á bilinu 50-100 fermetrar.

Heimild: Vb.is