Home Fréttir Í fréttum Á annan milljarð króna ónýttur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Á annan milljarð króna ónýttur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

71
0

Um 1.200 milljónir króna liggja enn óhreyfðir í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og hefur ekki verið ráðstafað í þau verkefni sem úthlutað hefur verið til. Þetta kom í ljós við undirbúning fjárlagafrumvarpsins og greint er frá á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

<>

Unnið hefur verið að því í sumar að kortleggja ástæður þess en þeirra á meðal eru að skipulagsvinnu er ólokið, undirbúningur og hönnun ýmis konar hefur tekið lengri tíma, ágreiningur um eignarhald svæða hefur tafið framkvæmdir og þar fram eftir götunum eins og reifað er á vef ráðuneytisins.

Þar segir einnig að á undanförnum tveimur árum hefur hefur 1.700 milljónum króna verið varið til verndar og uppbyggingar á ferðamannastöðum í gegnum Framkvæmdasjóðinn en tæpar 500 milljónir króna hafa komið frá gistináttaskatti en 1.230 milljónir króna hafa komið í gegnum sérstakar úthlutanir ríkisstjórnarinnar árin 2014 og 2015.

Nú verður metið hversu háum fjárhæðum stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða geti endurúthlutað þar sem ekki sé lengur þörf fyrir fjármunina í þau verkefni sem þeim var upprunalega úthlutað til.

„Með stórauknum framlögum til þessa málaflokks á síðustu tveimur árum hafa stjórnvöld sýnt skýran vilja sinn til þess að tryggja uppbyggingu nauðsynlegra innviða á ferðamannastöðum landsins. Staða Framkvæmdasjóðsins sýnir hins vegar glögglega að skortur á fjármagni er ekki stærsta hindrunin í uppbyggingunni þar sem vel yfir helmingi verkefna sem úthlutað hefur verið til er enn ólokið,“ segir í tilkynningunni og bætt við:

„Ljóst er að bæta þarf úr skipulagi og framkvæmd allra þeirra aðila sem að þessu koma til þess að tryggt verði að þeir fjármunir sem ráðstafað hefur verið skili sér í bættri aðstöðu. Unnið er að nákvæmri greiningu á stöðu verkefnanna og verða ákvarðanir um frekari framlög til Framkvæmdasjóðsins teknar við meðferð fjárlagafrumvarpsins á Alþingi þegar þær upplýsingar liggja fyrir.“

Heimild: Vísir.is