Home Fréttir Í fréttum Nýtt hjúkrunarheimili á Ísafirði

Nýtt hjúkrunarheimili á Ísafirði

177
0

Nýtt hjúkrunarheimili fyrir 30 heimilismenn stendur nú tilbúið hér á Ísafirði, fullkomið að allri gerð, í samræmi við ítrustu kröfur um aðbúnað og umhverfi, sem við viljum búa elstu íbúum okkar samfélags.

<>

Það er sagt að hægt sé að meta samfélög eftir því hvernig þau búi að elstu og yngstu borgurum sínum. Ekkert lýsir betur heilbrigðu og sterku samfélag, þar sem mannúð og velferð ríkir, en það hvernig búið að elstu og yngstu þegnunum. Þeim sem þurfa annaðhvort leiðbeinandi eða líknandi hönd. Samfélag sem ekki sinnir þeirri skyldu er snautt samfélag. Það er því með ánægju og nokkru stolti sem við getum hér í dag fagnað þeim tímamótum að Ísafjarðarbær hefur með samtakamætti og í samstarfi við ríkisvaldið, náð merkum áfanga í bættum aðbúnaði fyrir elstu íbúa sveitarfélagsins. Það er vonandi merki um að samfélag okkar sé bæði ríkt og gefandi.
Ísafjörður í forystu
Baráttan fyrir því að koma upp nýju hjúkrunarheimili hér á Ísafirði er orðin löng og ekki efni til að rifja hana upp hér. En hinsvegar má vel rifja það upp að Ísafjarðarkaupstaður var á sínum tíma í farabroddi, þegar hann setti á fót fyrsta elliheimili sem rekið var af sveitarfélagi hér á landi. Það var árið 1921 að bærinn setti á fót elliheimili í kjallara Hjálpræðishersins við Mánagötu. Með sérstöku samkomulagi tók „herinn“ að sér umönnun 15 farlama og þurfandi bæjarbúa. Fjórum árum síðar var nýtt sjúkrahús tekið í notkun á Eyrartúni á Ísafirði og þegar sjúklingar fluttu í nýja spítalann, var gamli spítalinn í Mánagötu gerður að elliheimili. Sjálfsagt er að nefna að það voru jafnaðarmenn sem fóru með forystu bæjarmála á þeim tíma.

Elliheimilið í Mánagötu þjónaði hlutverki sínu um áratuga skeið. En löngu áður en hlutverki þess lauk var byrjað að ræða um byggingu nýs elliheimilis og síðar hjúkrunarheimilis. Á 100 ára afmæli Ísafjarðarkaupstaðar 26. janúar árið 1966 var samþykkt á sérstökum hátíðarfundi bæjarstjórnarinnar að byggja nýtt elliheimili fyrir 40 vistmenn. Ekkert varð þó úr framkvæmdum í bráð.

Gömlu baráttumáli siglt í höfn
Það var ekki fyrr en eftir síðustu aldamót, þegar ríkisvaldið setti fram áætlun um stórfellda uppbyggingu hjúkrunarrýma, að málið komst fyrir alvöru aftur á dagskrá. En kálið var þó ekki enn komið í ausuna. Það var ekki fyrr en haustið 2011 að ríkisstjórnin tilkynnti ákvörðun um fjármögnun nýs hjúkrunarheimilis á Ísafirði og 10. nóvember sama ár var loks undirritað samkomulag á milli Ísafjarðarbæjar og velferðarráðuneytisins um byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði fyrir 30 heimilismenn. Þaðan í frá varð ekki aftur snúið.

Haldin var samkeppni meðal arkitekta um hönnun og útlit byggingarinnar og dómnefnd valdi tillögu frá AV arkitektastofu, sem teiknað hefur húsið sem við njótum nú í dag. Hinn 30. maí 2012 tók Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra fyrstu skóflustunguna að byggingunni og um leið var verðlaunatillagan sýnd og tilkynnt um nafn hússins, sem heitir:

Hjúkrunarheimilið Eyri
Framkvæmdir við lóð hófust í kjölfarið árið 2012 og útboð á uppsteypu og ytri frágangi hússins. Framkvæmdir við bygginguna hófust í ágúst 2013 og lauk þeim áfanga sumarið 2014 (júlí 2014). Síðari áfangar, innréttingar og innri frágangur, hafa staðið allt þetta ár og er nú lokið. Samhliða hafa staðið yfir framkvæmdir við lóð hússins og lýkur þeim um miðjan næsta mánuð. Viðtökuvottorð byggingarinnar var gefið út af Framkvæmdasýslu ríkisins þann 30. júlí 2015.

Heimamenn sáu um framkvæmdir

Ísfirðingar og Vestfirðingar búa að langri og ríkulegri iðnaðarhefð. Allt frá því Ísafjaðarkaupstaður varð til hefur bærinn státað af vel menntuðum og hæfum iðnaðarmönnum í tré, járni, múrverki og öðrum iðngreinum, sem tækni og verkþekking þjóðarinnar hefur fært okkur. Iðnaðarmenn á Ísafirði settu á fót iðnskóla hér árið 1905 og iðnaðarmenn og iðnfyrirtæki hafa alla tíð verið ein af undirstöðum atvinnulífs hér í bænum.
Það er ánægjuleg staðreynd að verktakar og iðnfyrirtæki hér í bænum stóðu að öllum helstu verkþáttum í þessari glæsilegu byggingu. Og hér gildir það fornkveðna: Að verkið lofar meistarann.
Mig langar að nefna hér nokkra þá sem unnið hafa að þessari glæsilegu byggingu: Hönnuðir byggingarinnar eru VA arkitektar undir forystu Indro Indriða Candi. Um burðarþol og lagnir sá verkfræðistofan, VSÓ ráðgjöf. Og um hönnun lóðar sá Teiknistofan Eik, Ísafirði, undir stjórn Erlu Bryndísar Kristjánsdóttur.
Helstu verktakar
Við grundun og jarðvegsvinnu sáu Vesturfell ehf. og Kubbur ehf. Um uppsteypu og frágang utanhúss, eftir útboð: Vestfirskir verktakar ehf. Frágangur innanhúss féll einnig í hlut Vestfirskra verktaka ehf. Undirverktakar þeirra voru meðal annarra: Póllinn hf., Málningarþjónusta Guðmundar og Gunnars, Múr og stimplun og AV pípulagnir. Inntré ehf. sá um allt tréverk, innréttingar og innihurðir. Um frágang lóðar sá Kubbur ehf. ásamt undirverktökum.
Öllum þessum verktökum, iðnaðarmönnum og starfsmönnum þeirra eru hér með færðar bestu þakkir fyrir vel unnin störf. Hér er ekki tilefni til að nefna alla þá sem lagt hafa gjörva hönd að þessu verki, en sem fulltrúa fyrir þá sem unnið hafa að verkinu, vil ég fá að nefna Svein Inga Guðbjörnsson trésmíðameistara, sem stýrt hefur verki í þessu húsi utanhúss og innan, og óska honum og öðrum sem unnið hafa með honum að byggingunni til hamingju með vel unnið verk, sem bera mun hróður ísfirskra iðnaðarmanna um langa framtíð.
Húsið er alls 2.318 fermetrar og samanstendur af þremur tíu íbúða kjörnum sem hver um sig inniber matsal – samverustofu, rými fyrir vöktun, þvotta, skol og ræstingu. Hver íbúð er 35,2 fermetrar. Fjórði kjarninn er sameiginleg tengibygging með aðalinngangi og þar er að finna aðstöðu til iðjuþjálfunar, sjúkrabað, aðstöðu til fót- og hársnyrtingar ásamt skrifstofum og tengigangi við sjúkrahúsið. Heildarkostnaður við bygginguna verður um 1.150 miljónir króna.
Að verklokum
Að verklokum vil ég þakka þeim sem starfað hafa í bygginganefnd hjúkrunarheimilis fyrir gott og árangursríkt samstarf. Það eru Eiríkur Finnur Greipsson sem starfaði sem formaður nefndarinnar frá 2010 til 2012, Kristín Hálfdánsdóttir sem þá tók við, Svanlaug Guðnadóttir sem starfaði í nefndinni til 2014 og Magnúsi Reyni Guðmundssyni sem kom til starfa 2014, en var áður varamaður í nefndinni. Öllum þessum þakka ég fyrir ánægjulegt samstarf. Fyrir hönd nefndarinnar vil ég svo þakka þeim tveimur mönnum sem starfað hafa með nefndinni gegnum þykkt og þunnt síðustu árin og tekið á sig þungann af daglegum önnum, eftirliti og umsjón með verkinu. Það eru þeir Jóhann Birkir Helgason tæknifræðingur, starfsmaður byggingnefndar og Ágúst Gíslason byggingastjóri Hjúkrunarheimilisins Eyrar. Þeim þakka ég fyrir vel unnin störf og fyrir að fylgja verkefninu eftir alla leið frá byrjun og allt til þessa dags.

Með nýju hjúkrunarheimili er tryggt að aldraðir Ísfirðingar, sem ekki eiga þess kost að sjá um sitt heimilishald sjálfir, geti í framtíðinni búið við traustar og öruggar aðstæður í heimilislegu umhverfi með nútímalegri þjónustu og aðbúnaði. Þannig getum við sem samfélag boðið öldruðum þær aðstæður sem eldri kynslóðin á skilið. Kynslóðin sem byggði upp Ísland nútímans, velferðarsamfélag okkar daga. Megi starfsemi Hjúkrunarheimilisins Eyri verða íbúum og samfélagi Vestfjarða til heilla og hamingju um ókomin ár.

Sigurður Pétursson, formaður Bygginganefndar Hjúkrunarheimilisins Eyrar í Ísafjarðarbæ.

Heimild: Skutull.is