Home Fréttir Í fréttum Suðurverk bauð lægst í þverun Þorskafjarðar

Suðurverk bauð lægst í þverun Þorskafjarðar

205
0
Brúin styttir Vestfjarðaveg um níu kílómetra. Í forgrunni má sjá hvar núverandi vegur hlykkjast upp á Hjallaháls. Við ströndina neðst til hægri má sjá veglínuna í átt að Teigsskógi. Mynd: VEGAGERÐIN

Suðurverk hf. í Kópavogi átti lægsta boð í þverun Þorskafjarðar en tilboð voru opnuð í gær.

<>

Þetta er eitt stærsta verk sem Vegagerðin býður út í ár en tilboð Suðurverks hljóðaði upp á 2.237 milljónir króna.

Það reyndist 158 milljónum, eða 7,6 prósentum, yfir kostnaðaráætlun upp á 2.078 milljónir króna.

Fimm verktakar buðu í verkið en næstlægsta boð átti Þróttur ehf. á Akranesi, upp á 2.265 milljónir króna, eða 28 milljónum hærra en boð Suðurverks.

Aðrir bjóðendur voru ÞG verktakar, Ístak og Íslenskir aðalverktakar, sem áttu hæsta boð, upp á 2.946 milljónir króna, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Horft inn Þorskafjörð. Áformað er að framkvæmdir hefjist í kringum næstu páska, um mánaðamótin mars – apríl.
Mynd: EGILL AÐALSTEINSSON

Verkið sem kallast Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit, Kinnarstaðir – Þórisstaðir, er hluti hinnar umdeildu vegagerðar um Teigsskóg og felst í nýbyggingu Vestfjarðavegar á 2,7 kílómetra kafla yfir Þorskafjörð.

Innifalið í verkinu er bygging 260 metra langrar brúar á Þorskafjörð. Verkinu skal að fullu lokið 30. júní 2024.

Suðurverk hefur mikla reynslu af vegagerð á Vestfjörðum. Fyrirtækið er nýbúið að ljúka gerð Dýrafjarðarganga í samstarfi við tékkneska verktakann Metrostav og vinnur núna, sem undirverktaki Íslenskra aðalverktaka, að lagningu nýs vegar í Arnarfirði, milli Dynjanda og Mjólkárvirkjunar.

Suðurverk hefur áður þverað firði á Vestfjarðavegi.

Við norðanverðan Breiðafjörð brúaði Suðurverk bæði Kjálkafjörð og Mjóafjörð inn af Kerlingarfirði á árunum 2012 til 2014.

Heimild: Visir.is