Home Fréttir Í fréttum Vill byggja 2.340 fermetra í Mosó

Vill byggja 2.340 fermetra í Mosó

402
0
Mynd úr kynningunni sem send var skipulagsnefnd Mosfellsbæjar.

Félagið Bull Hill Capital hefur óskað eftir vilyrði til að byggja níutíu iðnaðarbil á Tungumelum í Mosfellsbæ.

<>

Félag í eigu Aðalsteins Jóhannssonar, fyrrverandi hluthafa í Korta og áður meirihlutaeigandi Beringer Finance, hefur hug á því að byggja upp níutíu iðnaðar- og geymslubil fyrir einyrkja og fyrirtæki.

Erindi þess efnis var til meðferðar á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar fyrir helgi.

Samkvæmt áætlunum félagsins yrði hvert bil 26 fermetrar og húsin þrjú talsins. Alls myndu þarna því byggjast upp kringum 2.300 fermetrar.

Lóðin yrði malbikuð og afgirt með glæstu rafmagnshliði og öryggis- og eftirlitskerfi. Framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir að smíði taki um fjóra mánuði og að starfsemi geti hafist þarna seinnipart sumars.

Í erindi til nefndarinnar er óskað eftir vilyrði til uppbyggingar á lóðinni Brúarfljóti 8 á Tungumelum.

Umsækjandi er félagið Bull Hill Capital hf. en einnig er farið fram á að fá leyfi til að sameina lóðir númer 6 og 8 ef eftirspurn verður mikil.

Uppbygging á síðari lóðinni gæti hafist á síðari hluta þessa árs að sögn félagsins.

Um miðjan desember fékk Bull Hill Capital rannsóknafyrirtækið MMR til að gera viðhorfskönnun á mögulegri uppbyggingu en úrtakið var 300 manns.

Þar kom fram að tæplega þriðjungur væri jákvæður í garð hennar og rúmlega fjórðungur hefði áhuga á að fjárfesta í slíku bili.

Fyrirtækjum og einstaklingum í Mosfellsbæ biðist að kaupa bilin í forsölu áður en þau færu á almennan markað.

Erindi félagsins var vísað til umhverfissviðs Mosfellsbæjar til meðferðar.

Heimild: Vb.is