
Félag hjónanna Birgis Bieltvedt fjárfestis og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, Eyja fjarfestingarfélag, hefur keypt fasteignina við Suðurlandsbraut 18, Esso-húsið svokallaða, af fasteignaþróunarfélaginu Festi. Kaupverðið er 1,2 milljarðar króna.
Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í morgun.
Þar segir að greitt sé fyrir fasteignina að stærstum hluta með peningum, en hluti með tveimur fasteignum – Lækjargötu 4 í Reykjavík þar sem veitingastaðurinn Jómfrúin er til húsa, og svo Lágmúla 7 þar sem er að finna vörugeymslu sem nú er leigð út til Sýnar og Nova.
Esso-húsið svokallaða er um 3.400 fermetrar að stærð, en Olíufélagið lét reisa það árið 1975.

Mynd: VÍSIR/VILHELM
Um tíma stóð til að opna hótel í húsinu en fallið var frá þeim áformum. Síðasta sumar var svo gerður tuttugu ára leigusamningur við Kvikmyndaskóla Íslands sem verður áfram í gildi samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins.
Heimild: Visir.is