Home Fréttir Í fréttum Nýbygging lendi mjúklega á Öldugötu

Nýbygging lendi mjúklega á Öldugötu

106
0
Brekkustígur 9 til vinstri og Öldugata 44 til hægri. Mynd: Fréttablaðið/Sigtryggur

Seint verður sátt meðal borgarbúa á lóðum í grónum hverfum,“ segir í umsögn embættis skiplagsfulltrúans í Reykjavík, um fjölmargar athugasemdir sem bárust vegna umsóknar um uppbyggingu á lóðunum Öldugötu 44 og Brekkustíg 9.

<>

Sótt er er um leyfi fyrir viðbyggingu við núverandi hús á Brekkustíg 9, að gera rishæð þannig að tvær íbúðir verði í húsinu í stað einnar, að byggja sex íbúðir í nýbyggingum og með breytingum og viðbyggingum verði gerðar tvær íbúðir í núverandi húsi á Öldugötu 44.

Athugasemdir bárust frá íbúum og eigendum 22 íbúða í næsta nágrenni og frá íbúaráði og Íbúasamtökum Vesturbæjar að auki. Sömuleiðis frá stjórnendum í leikskólanum Drafnarsteini og foreldrum barna þar.

Skipulagsfulltrúi segir í umsögninni að þó svo að Gamli Vesturbærinn sé skilgreindur sem „fullbyggt og fullmótað“ hverfi, þýði það ekki að breytingar á húsum eða nýbyggingar séu óheimilar.

Byggingarleyfisumsóknirnar falli að ákvæðum Aðalskipulags um hverfisvernd og byggðamynstur og að með þeim báðum fylgi jákvæð umsögn Minjastofnunar Íslands.

Samanlagt er óskað eftir að fjölga íbúðum úr tveimur í tíu, en skipulagsfulltrúinn segist fallast á að það sé mikil fjölgun. „Skal fjölgunin ekki vera meiri en fjórar til fimm íbúðir. Það þýðir sex til sjö íbúðir samanlagt.“


Þessi arkitektúr þykir of framandi fyrir umhverfið. Mynd/Kanon Arkitektar

Undirstrikað er að samkvæmt samþykktri bíla- og hjólastæðastefnu Reykjavíkurborgar sé rými fyrir fjölgun íbúða á svæðinu og að fjöldi bílastæða í borgarlandi eigi að nægja þeim íbúðum sem séu við göturnar og þeim sem bætast við.

Gerðar voru margar athugasemdir um að tillögurnar féllu ekki að upprunalegri og heillegri götumynd. Sem fyrr segir bendir skipulagsfulltrúi á að ólíklegt sé að ná sátt um slíka hluti í grónum hverfum.

„Lagst var gegn fyrri tillögum sökum stærðar og framandleika nýrra bygginga við sitt nánasta umhverfi,“ bendir skipulagsfulltrúinn á og gerir einnig athugasemdir við núverandi tillögu.

„Verður að segja að nýbyggingin sem erindið leggur til er framandi í þessu umhverfi og erfitt að sjá að það verði sátt um hana,“ segir í umsögninni þar sem ítrekað er að uppbyggingin þurfi að vera í sátt við umhverfi íbúanna og að í arkitektúrnum birtist samtal nútíðar og fortíðar.

„Því er mikilvægt að einfalda og milda hönnunina þannig að húsið lendi mjúklega í byggðina eins og það eigi heima þarna.“

Heimild: Frettabladid.is