Home Fréttir Í fréttum Norðurturninn sigrar Smáralind á ný

Norðurturninn sigrar Smáralind á ný

324
0
Deilan snýst um nýtingarrétt á bílastæðum Smáralindar og Norðurturns. Mynd: Haraldur Guðjónsson /vb.is

Héraðsdómur Reykjaness úrskurðar Norðurturninum í vil gegn Smáralind og Kópavogsbæ í endurteknu máli um bílastæði.

<>

Héraðsdómur Reykjaness hefur úrskurðað Norðurturninum hf., í vil í máli þeirra gegn Eignarhaldsfélagi Smáralinar ehf., og Kópavogsbæ vegna þinglýsingar á rétti til nýtingar bílastæða á lóð Smáralindar.

Er eignarhaldsfélagi verslunarmiðstöðvarinnar og bæjarfélaginu nú gert að greiða Norðurturninum 700 þúsund krónur í málskostnað auk þess sem ákvörðun þinglýsingarstjóra frá 22. mars 2019 er felld úr gildi og á ný sett inn kvöð um samnýtingu bílastæða turnsins og verslunarmiðstöðvarinnar.

Norðurturninn, sem er sambyggður við Smáralind, er á lóðinni Hagasmára 3, meðan Smáralind er á Hagasmára 1, en upphaflega var síðarnefnda lóðin fjórar lóðir með númerin 1, 5, 11 og 13 en þær voru sameinaðar undir fyrstnefnda nafninu.

Landsréttur kvað upp samhljóða dóm í máli Norðurturnsins gegn eignarhaldsfélaginu og bæjarfélaginu sumarið 2019, þar sem viðurkenndar voru kvaðir á lóðum félaganna tveggja um samnýtingu bílastæða, fráveitulagna og um gagnkvæman umferðarrétt.

Þá sagði Vísir frá því að málskostnaðurinn sem Norðurturninn fékk frá mótaðilunum nam 4 milljónum króna, bæði vegna mála fyrir réttinum sem og í héraði, þar sem eignarhaldsfélagið og bæjarfélagið unnu fyrst málið áður en því var snúið við í Landsrétti. Hæstiréttur heimilaði síðan áfrýjun þar sem Norðurturn fékk dæmt sér í vil í júní á síðasta ári.

Málið snýst um það að þegar Norðurturninn hf. eignaðist lóðina að Hagasmára 3 í október 2013 hafi samkvæmt lóðaleigusamningi við Kópavogsbæ frá 2008 komið fram að á henni væru kvaðir um samnýtingu bílastæða lóðarinnar og lóðarinnar á Hagasmára 1, og vildi félagið staðfesta fyrir dómi að sú þinglýsing gilti.

Eignarhaldsfélagið hafði hins vegar fengið þinglýst í í október 2018 endurnýjaðan lóðarleigusamning vegna Hagasmára 1 þar sem kvaðarinnar var ekki getið, en Norðurturninn krafðist þess að hún yrði sett inn í janúar 2019. Samkvæmt úrskurðinum nú ætti kvöðin að vera komin inn á ný.

Heimild: Vb.is