Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir í Hamraborg: „Ekki sátt um verkefnið“

Framkvæmdir í Hamraborg: „Ekki sátt um verkefnið“

169
0
Mynd: PK Arkitektar
Fulltrúar minnihlutans í Kópavogi gagnrýna fyrirhugaðar framkvæmdir í Hamraborg. Þeir segja meðal annars að skortur hafi verið á samráði og að það hafi ekki verið góð hugmynd að selja einkaaðilum miðbæinn.

Kópavogsbær ætlar að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir í Hamraborg þar sem 550 íbúðir eru fyrirhugaðar, auk verslunar og þjónustu.

<>

Áætlaður kostnaður er um 20 milljarðar og framkvæmdir munu taka nokkur ár. Skiptar skoðanir eru um þessar hugmyndir á meðal íbúa.

Gömlu bæjarskrifstofur Kópavogs að Fannborg 2, 4 og 6 verða rifnar til að rýma fyrir nýju húsnæði og sama á við um hús við Vallartröð og Neðstutröð.

Svonefndur mannlífsás, gata fyrir gangandi og hjólandi, mun svo liggja í gegnum svæðið. Gert er ráð fyrir að tvær leiðir Borgarlínunnar muni svo stoppa skammt frá.

Ekki sátt

Bærinn stóð fyrir kynningarfundi í beinu streymi í dag, þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir Bvoru kynntar fyrir íbúum.

Fulltrúar minnihlutans í Kópavogi gagnrýna vinnuferlið.

„Við erum öll sammála um að við viljum byggja upp Hamraborgina og gera hana fallega og hlýlega en ég hafði allt aðrar væntingar um hvernig yrði unnið að þessu,“ segir Theódóra Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi Viðreisnar.

„Og þegar við seldum þessi hús sem er forsendan að þessum breytingum, þá var það einnig forsenda fyrir því kauptilboði sem kom að þetta yrði unnið í miklu samráði við samfélagið þarna í kring, íbúana, fyrirtækjaeigendur og slíkt.

Ég hef allt aðrar hugmyndir um þetta samráð en núverandi meirihluti og ég hefði viljað byrja miklu fyrr á þessari vinnu og gera þetta eins og var uppálagt þegar við lögðum af stað með þetta verkefni.

Af því að við höfum auðvitað skipulagsvaldið og við viljum vinna þetta með íbúum. En ég er ekki sátt við það hvernig þetta hefur farið. Og það er ekki sátt um verkefnið og það hefði mátt segja manni það miðað við hvernig þetta fór af stað.“

Fallegur og skemmtilegur miðbær

„Upphaflega vorum við á móti þessum samningum, að selja miðbæinn til einkaaðila,“ segir Pétur Hrafn Sigurðsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar. „Við erum þeirrar skoðunar að hagsmunir einkaaðila og hagsmunir bæjarins fari alls ekki saman í þessu máli, við skipulagningu á miðbæ Kópavogs.

Hagsmunir einkaaðila felast meira og minna í því að þétta byggð, fjölga íbúðum og byggja stórt og hátt eins og vinnslutillögur 1 og 2 sýndu. En hagsmunir bæjarins og bæjarbúa eru kannski aðrir.“

Finnst ykkur að það ætti þá að bakka út úr þessu?

„Ég er ekki viss um að það sé hægt að bakka út úr þessu en skipulagsvaldið er auðvitað bæjarins og bærinn getur auðvitað gert kröfur um að skipulagið verði unnið í samvinnu við íbúana á svæðinu og verði manneskjulegt og fallegur og skemmtilegur miðbær,“ segir Pétur.

Heimild: Ruv.is