Home Fréttir Í fréttum Mikið um framkvæmdir í Langanesbyggð á árinu

Mikið um framkvæmdir í Langanesbyggð á árinu

143
0
Mynd: þórshöfn

Á þessu ári eru fyrirséðar nokkrar stærri framkvæmdir á vegum Langanesbyggðar, auk hefðbund-inna verkefna sem finna má stað í rekstri sveitarfélagsins, skv. fjárhagsáætlun sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar fyrir jól.

<>

Alls eru framkvæmdir og fjárfestingar áætlaðar fyrir um 181,5 m.kr. á árinu. Rekstur sveitarfélags verður að mestu leyti í sama horfi og verið hefur undanfarin ár.

Heildartekjur A og B hluta sveitarsjóðs á árinu eru áætlaðar um 976 m.kr. og rekstrargjöld um 922 m.kr. án fjármagnsliða, en árið verður sveitarfélaginu eins og öðrum nokkuð þungt í skauti vegna lægri tekna í kjölfar Covid-19.

Með fjármagnsliðum er áætlað að rekstur verði í jafnvægi á þessu ári eins og 2020, þó lítið megi út af bregða.

Merki Langanesbyggðar

Í tilkynningu á vef Langanesbyggðar segir að fyrsta stórverkefni ársins verði að ljúka dýpkun athafnasvæði uppsjávarskipa í Þórshafnarhöfn í 9,5 metra.

Í fyrra var unnið við dýpkun innsiglingar og botnhreinsun hafnarinnar, eins og kynnt hefur verið. Þessum aðgerðum ætti að vera lokið fyrir loðnuvertíð í vetur sem vonandi verður af.

Eftir að þessum aðgerðum lýkur, ætti höfnin að geta tekið á móti því sem næst öllum uppsjávarskipum sem veiða á Íslandsmiðum.

Heildarkostnaður, við dýpkunarframkvæmdir og botnhreinsun eru um 260 m.kr. og er áætlaður hlutur sveitarfélagsins um 85-90 m.kr.

Eitt umfangmesta verkefni ársins og næstu ára verður heildarviðgerð á íþróttamiðstöðinni Veri. Nú er unnið að gerð áætlunar um viðhald og endurbætur.

Áætlaðar eru um 50 m.kr. til verksins í ár, en ljóst að heildarkostnaður verður nær 200 m.kr. á næstu árum. Markmiðið með því að dreifa verkinu á lengri tíma er til að lágmarka lokun hússins.

Ef Vegagerðin ræðst í malbiksframkvæmdir við Fjarðarveg og Langanesveg næsta sumar, er nauðsynlegt að endurnýja frárennslislagnir í Lagnesvegi og Eyrarvegi. Áætlaður heildarkostnaður við þær framkvæmdir er um 32 m.kr.

Í  janúar hefjast framkvæmdir vegna viðgerðar á hafnargarðinum á Bakkafirði, sem skemmdist illa í óveðrinu 10. desember 2019. Í kjölfarið er stefnt að því í sumar að laga til á hafnarsvæðinu. Enn fremur er unnið við framkvæmdir vegna útsýnissvæðis við ysta haf – við Hafnartanga og á þeim að mestu að ljúka í vor.

Núverandi húsnæði skrifstofu sveitarfélagsins að Fjarðarvegi 3 hefur verið selt og verður húsnæðið afhent nýjum eiganda í október á þessu ári, en það var sett á formlega sölu í haust sem leið.

Flutningur skrifstofunnar að nýju að Langanesvegi 2 skapar ekki aðeins starfsfólki rýmri og betri aðstöðu, heldur verður þar líka varanleg fundaraðstaða fyrir sveitarstjórn og nefndir sveitarfélagsins. Núverandi vinnuaðstaða uppfyllir ekki nútímakröfur um vinnuaðstöðu og fundir sveitarfélagsins hafa verið á fjórum stöðum í sveitarfélaginu.

Heimild: 640.is