Home Fréttir Í fréttum Vilja jarðgöng í stað ónýtra vega á Suðurfjörðunum

Vilja jarðgöng í stað ónýtra vega á Suðurfjörðunum

142
0
Mynd: aðsend mynd - RÚV
Formaður Samtaka atvinnurekenda á Sunnanverðum Vestfjörðum vill að jarðgöng komi í stað ónýtra fjallvega. Vegurinn um Mikladal er ónýtur og klæðning þar víða farin af, endurbygging myndi kosta um milljarð.

Umtalsverðar slitlagsskemmdir eru á Bíldudalsvegi, á Mikladal og í Tálknafirði og hefur viðvörun þess efnis verið á heimasíðu Vegagerðarinnar síðustu vikurnar. Umdæmisstjóri Vegagerðarinnar sagði nýlega að um milljarð myndi kost að endurbyggja veginn en það fé sé ekki til staðar.

<>

Vill jarðgöng í stað ónýtra vega

Sigurður V. Viggósson, formaður Samtaka atvinnurekenda á Sunnanverðum Vestfjörðum, segir að vegurinn um Mikladal, á milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar, sé líklega sá fjölfarnasti á Vestfjörðum.

Bágt vegaástand á svæðinu hafi verið viðvarandi síðustu ár.

„Farsælasta lausnin, að okkar áliti, eru jarðgöng. Það mun spara okkur snjómokstur og koma í veg fyrir þá hættu sem fylgir fjallvegum. Það ætti að setja göng strax á áætlun,“ segir hann.

Neikvæð áhrif á atvinnulíf og fólk hrætt við að fara á milli

Flutningar um veginn hafa aukist verulega á síðustu árum, sérstaklega með auknum umsvifum í fiskeldi, og fara tugir vörubíla þar um á hverjum degi.  Þá segir Sigurður að fólk sem búi í einum firði en starfi í öðrum sé hræddara við að fara á milli staða séu ekki kjöraðstæður á vegum.

„Þetta verður aldrei til friðs nema að vegirnir séu færðir ofan af fjöllunum.“

Sveitarfélögin Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð hafa einnig sagst hlynnt gangagerð. Sigurður segist ekki vita betur en að samgönguráðherra sé jákvæður gagnvart samgöngubótum á Vestfjörðum. Nú reyni á að setja jarðgöng á dagskrá sem allra fyrst.

Heimild: Ruv.is