Home Fréttir Í fréttum Velta upp framtíð Langasands og íþróttasvæðis ÍA

Velta upp framtíð Langasands og íþróttasvæðis ÍA

116
0
Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Langisandur, sundlaugin Guðlaug og íþróttasvæðið á Jaðarsbökkum á Akranesi eru undir í hugmyndasamkeppni um framtíð svæðisins sem fer af stað á nýju ári. Bærinn vill fá álit Skagamanna um hvernig skuli vera umhorfs þar við ströndina og á íþróttasvæðinu áður en samkeppnin hefst.

Skagamenn geta sagt sína skoðun í rafrænni könnun fram að áramótum. Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, segir Langasand og íþróttasvæðið Skagamönnum hjartfólgin og að hugmyndir hrannist inn.

<>

„Ég er ekki farinn að skoða þær, ég ætla bara að leyfa ferlinu að ganga sinn gang. Það verður mjög spennandi að sjá hvernig fer, enda erum við þarna með blöndu af íþróttamannvirkjum, náttúruperlum og svo atvinnurekstri í kringum Guðlaugu sem þarf að spila saman.“

Innan svæðisins er knattspyrnuvöllur ÍA sem hefur óneitanlega sérstöðu vegna nálægðar sinnar við sjávarsíðuna.

Er eitthvað inni í myndinni að völlurinn fari annað?

„Ég held að á þessu stigi þá tali ég bara frá minni eign persónu, bara sem íbúi. Ég myndi ekki vilja sjá íþróttavöllinn fara annað. Það getur vel verið að einhver annar komi með þá hugmynd, en ég er persónulega á annarri skoðun. Þá er ég bara að tala sem íbúi.“

Akraneskaupstaður og félag landslagsarkitekta standa að samkeppninni sem er af stað upp úr áramótum í kjölfar viðhorfskönnunarinnar.

Heimild: Ruv.is