Ákveðið hefur verið að rúmlega þrefalda framleiðslu á astaxanthíni hjá líftæknifyrirtækinu Algalíf í Reykjanesbæ með því að stækka verksmiðju fyrirtækisins um rúmlega helming. Hafist verður handa strax í upphafi næsta árs og rúmlega 100 störf munu skapast á framkvæmdatímanum fram til 2022.
Erlend fjárfesting vegna verkefnisins nemur um fjórum milljörðum króna. „Ársveltan mun nærri fjórfaldast eftir stækkun og fara úr einum og hálfum milljarði króna í um fimm og hálfan milljarð“ er haft eftir Orra Björnssyni, forstjóra Algalífs, í tilkynningu.
Algalíf Iceland ehf. var stofnað í ágúst 2012 og er í eigu norska félagsins NutraQ A/S. Framkvæmdastjóri fyritækisins er Orri Björnsson sem hefur um árabil starfað í lyfjageiranum, meðal annars hjá Actavis og einnig sem sérfræðingur og framkvæmdastjóri hjá Sameinuðu þjóðunum vegna uppbyggingar á nútíma lyfjaverksmiðjum í Afríku.
„Öll framleiðsla þessa árs er löngu seld og bróðurpartur framleiðslu næsta árs líka. Markaðshorfur eru mjög góðar og fjögurra milljarða erlend fjárfesting sýnir trú á því sem við erum að gera“ segir Orri.
Öll framleiðsla Algalífs á örþörungum fer fram í stýrðu umhverfi innanhúss með umhverfisvænum orkugjöfum, eru bæði magn og gæði stöðug. Úr þörungunum er unnið fæðubótaefnið astaxantín. Algalíf hefur getið sér gott orð á alþjóðavettvangi fyrir sjálfbærni, gæði og afhendingaröryggi.
Framleiðsla Algalífs á astaxanthíni úr örþörungum er umhverfisvæn og ekkert jarðefnaeldsneyti er notað í ferlinu. Notast er við sérstök LED ljós og tölvustýrð ljósa- og hitakerfi við ræktun örþörunganna í lokuðum rörakerfum sem þýðir að vatns-, raforku- og landnotkun er í lágmarki.
Heimild: Mbl.is