Home Fréttir Í fréttum Steypt þakplata hrundi til jarðar í íþróttahúsi Fram

Steypt þakplata hrundi til jarðar í íþróttahúsi Fram

536
0
Teikning af nýju íþróttasvæði Fram sem nú er í uppbyggingu. Mynd/Reykjavíkurborg

Engum varð meint af en ekki liggur fyrir hversu mikið fjárhagslegt tjón er um að ræða. Ekki er heldur vitað hvað leiddi til óhappsins.

<>

Óhapp varð á byggingasvæði Fram í Úlfársárdal á föstudag þegar steypt þakplata hrundi til jarðar. Engum varð meint af, að sögn Bjarka Sigfússonar, rekstrarstjóra verkefna hjá GG Verk en verktakinn vinnur þar að uppbyggingu nýrrar íþróttamiðstöðvar.

„Það er nú ekki algengt að þetta gerist en þó kemur það fyrir. Við vitum ekki enn hvað orsakaði þetta en við erum að skoða málið.“

Ekki liggur fyrir hversu mikið fjárhagslegt tjón er um að ræða en að sögn Bjarka er það óverulegt. Verið var að steypa þakplötu yfir gangi í íþróttahúsinu þegar óhappið átti sér stað.

„Það eru reistar súlur, settar plötur fyrir ofan og steypunni hellt þar ofan á þegar mótið og undirslátturinn gefur sig eftir að það er búið að steypa.“

Slökkvilið kallað til

Bjarki segir að búið hafi verið að rýma svæðið undir plötunni og loka því í samræmi við verklagsreglur áður en undirslátturinn gaf sig skyndilega.

„Það urðu engin slys og öllum öryggisreglum fylgt. Eitthvað svona getur alltaf gerst, það er mikið mekkanó sem er sett undir þetta og ef eitthvað gefur sig þá hrynur þetta svolítið eins og spilaborg. Við erum bara enn þá að finna út úr því hvað olli því í samráði við Vinnueftirlitið.“

Nýja íþróttamiðstöðin verður alls 7.300 fermetrar. Mynd/Reykjavíkurborg

Búið er að hreinsa upp svæðið og nutu GG Verk aðstoðar slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins þar sem platan lenti á steinolíutunnum með þeim afleiðingum að olía lak úr þeim.

„Þeir notuðu sín efni til að hjálpa okkur að hreinsa upp svo það yrði ekki neitt mengunarslys, svo er þetta bara hreinsað upp af okkar starfsfólki.“

Hvergi bangnir og reyna aftur á næstu dögum

Bjarki segir að til standi að steypa plötuna aftur í þessari viku og loka þar með umræddum gangi. Hann segir að atvikið eigi ekki að valda töfum á verklokum.

Fyrsta skólfustunga að nýrri íþróttamiðstöð Fram var tekin í Úlfársárdalnum fyrir rétt rúmu ári. Auk fjölnota íþróttahúss verður þar reist áhorfendastúka fyrir aðalleikvang í knattspyrnu, minni íþróttasalir, félags- og þjónustuaðstaða fyrir starfsfólk, þjálfara og félagsmenn, búningsrými ásamt samkomusal og fundaraðstaða.

Byggingin verður alls 7.300 fermetrar á þremur hæðum og er kostnaður við framkvæmdina áætlaður 4,6 milljarðar króna. Áætluð verklok eru í lok árs 2022.

Heimild: Frettabladid.is