Home Fréttir Í fréttum Framúrkeyrsla og brotalamir við framkvæmdir í Árborg

Framúrkeyrsla og brotalamir við framkvæmdir í Árborg

183
0
Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við ýmsa þætti framkvæmda og verklags sveitarfélagsins Árborgar í skýrslu sem lögð var fram í síðustu viku.
Framkvæmdir við ráðhús bæjarins voru langt komnar án þess að bæjarráð hafi samþykkt fjármagn til þeirra. Þá fóru fleiri framkvæmdir langt fram úr áætlun.

Skýrslan var unnin af endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton og var hún lögð fram og kynnt í bæjarstjórn Árborgar þann 30.11. 2020

<>

Fram kom í máli meirihlutans að lærdóm megi draga af innihaldi skýrslunar en frekari umræða um hana hefur verið boðuð þegar samkomutakmarkanir renna sitt skeið og bæjarstjórn kemur saman í eigin persónu.

Ástæðu þess að skýrslan var gerð má rekja til þess að viðgerðir á ráðhúsi Árborgar sem kosta átti um fimm milljónir króna fór margfalt yfir áætlaðan kostnað og fjármagn til framkvæmdanna var ekki samþykkt í bæjarráði fyrr en þær voru hafnar.

Óskað var eftir að úttekt yrði gerð á framkvæmdinni. Ákveðið var að úttektin skyldi ná til fleiri framkvæmda á vegum sveitarfélagsins.

Þrjú tilfelli komu upp þar sem grunur er um að embættismenn hafi farið út fyrir valdmörk sín og hafið framkvæmdir eða gengið til samninga án þess að viðunandi samþykki hafi fengist frá eigna- og veitunefnd eða bæjarráði.

Í ágúst var kostnaður við endurbætur á ráðhúsinu samtals tæpar 78 milljónir króna. Í skýrslunni segir að framkvæmdir hafi hafist haustið 2019 og standi enn.

Ekki var gerður sérstakur verksamningur né var hönnunin boðin út. Arkitektastofa áætlaði framkvæmdakostnað um 410 milljónir króna.

Verkið var ekki á fjárhagsáætlun ársins 2019 og í viðauka voru áætlaðar 34 milljónir til verksins.

Eigna- og veitunefnd fékk ekki kynningu á verkinu fyrr en framkvæmdir voru þegar hafnar.

„Ekki liggja fyrir í gögnum neinar upplýsingar um að hönnun eða fyrirhugaðar framkvæmdir hafa fengið kynningu eða umfjöllun í eigna- og veitunefnd eða bæjarráði áður en framkvæmdir hófust.

Bókun eigna- og veitunefndar frá 26. febrúar 2020 styður þessa ályktun. Þykir ljóst á gögnum að hönnun og framkvæmdir á endurbótum á Ráðhúsi hafi verið hafnar án þess að fyrir hafi legið viðunandi samþykki frá bæjarráði eða eigna- og veitunefnd.

Fyrir liggur að bæjarstjórn hafi falið bæjarstjóra að vinna úr tillögum skýrslunnar en ekki hafa verið lögð fram gögn sem sýna fram á að fullnægjandi umboð hafi verið fyrir því að hefja hönnun eða framkvæmdir,“ stendur í skýrslunni.

Þá er einnig gerð alvarleg athugasemd við að framkvæmdirnar hafi verið hafnar og komnar fram úr fjárheimildum sem aflað var eftir á.

„Alvarleg athugasemd er gerð við að framkvæmdir við endurbætur á Ráðhúsi hafi verið hafnar án þess að fyrir hafi legið viðunandi fjárheimildir samkvæmt fjárhagsáætlun. Viðauki við fjárhagsáætlun var samþykktur 16. október 2019 og framkvæmdir þá komnar vel á veg.

Þá eru einnig gerðar alvarlegar athugasemdir að verkinu hafi ekki verið aflað viðunandi fjárheimildir á árinu en raunkostnaður reyndist næstum tvöfalt það sem úthlutað hafði verið með viðaukanum.

Það er eftirtektarvert að þegar viðaukinn var samþykktur var áfallinn kostnaður verksins þá þegar kominn fram úr þeim fjárheimildum.“

Athugavert hvernig samið var við verktaka

Þá er einnig gerð athugasemd við það í skýrslunni að gengið hafi verið til samninga við Borgarverk vegna gatnaframkvæmda í Hagalandi án þess að niðurstaða útboðs hafði verið kynnt framkvæmda- og veitustjórn og formlegt samþykki fengist frá nefndinni.

Verktakanum hafði verið tilkynnt um að sveitarfélagið gengi að tilboði hans tveimur vikum áður en fundur nefndarinnar fór fram. Er þetta sagt sérstaklega gagnrýnivert í ljósi þess að tilboðum tveggja lægstbjóðanda var vísað frá í útboðinu og því full ástæða til að málið fengi efnislega umfjöllun í eigna- og veitunefnd áður en gengið yrði til samninga.

Í þriðja lagi er það gagnrýnt að gengið var til samninga við verktakann JÁVERK ehf. um framkvæmdir við sjötta áfanga Sunnulækjarskóla í febrúar 2018 í alverktöku án útboðs.

„Gögn bera ekki með sér forsendur þeirrar ákvörðunartöku, hvenær sú ákvörðun var tekin eða af hverjum. Liggur þannig ekki fyrir hvort málið hafi fengið viðunandi umfjöllun í nefndum og ráðum áður en gengið var til samninga við verktakann,“ stendur í skýrslunni.

Sambærileg athugasemd er gerð við framkvæmdir við Vallaskóla þar sem verkið var ekki boðið út þrátt fyrir að kostnaður við það hafi verið yfir þeim viðmiðunarmörkum um útboð hjá sveitarfélaginu. Þá hafi verkið farið fram úr fjárhagsáætlun.

Dælustöð 150 milljónir fram úr áætlun

Þá eru ýmsar framkvæmdir nefndar sem fóru fram úr fjárhagsáætlun, svo sem framkvæmdir við dælustöð, Vallaskóla, áðurnefndar framkvæmdir við Ráðhús, viðbygging Sunnulækjarskóla árið 2016, og framkvæmdir við Sundhöll Selfoss.

Ný dælustöð var tekin í gagnið hjá sveitarfélaginu í maí til að bregðast við fjölgun íbúa.

Úthlutað var 300 milljónum króna til verksins í fjárhagsáætlun ársins 2019. Raunverulegur kostnaður var hins vegar rúmlega 451 milljón króna og fór kostnaður því 151 milljón króna fram úr áætlun.

Í skýrslunni er gerð athugasemd við að ekki hafi verið aflað frekari fjárheimilda með viðauka við fjárhagsáætlun vegna þessa.

Samtals eru taldar upp 14 athugasemdir við aðkomu sveitarfélagsins að hönnun, framkvæmdum og útboði framkvæmda á vegum sveitarfélagsins.

Skýrsluna má lesa hér.

Heimild: Ruv.is