Home Fréttir Í fréttum Sigtún kaupir Landsbankahúsið á Selfossi

Sigtún kaupir Landsbankahúsið á Selfossi

213
0
Mynd: landsbankinn.is - Ljósmynd
Sigtún þróunarfélag, félag í eigu Leó Árnasonar og Kristjáns Vilhelmssonar, sem er útgeðarstjóri og einn eigenda Samherja, hefur keypt Landsbankahúsið á Selfossi fyrir 352 milljónir króna.
Kaupsamningurinn var undirritaður í dag. Sigtún Þróunarfélag er eitt þeirra félaga sem stendur að uppbyggingu nýs miðbæjarkjarna á Selfossi.

Í frétt á vef Landsbankans segir að fjögur tilboð hafi borist í húsið og að fallið hafi verið frá einu þeirra. Tilboð Sigtúns var hæsta tilboðið.

<>

Landsbankinn mun leigja hluta hússins fyrir starfsemi sína þar til hún verður flutt á nýjan stað á Selfossi.

Landsbankahúsið á Selfossi var reist á árunum 1949-1953, eftir grunnteikningum Guðjóns Samúelssonar, en áður hafði bankinn verið til húsa í Tryggvaskála og að Austurvegi 21.

Á vefsíðu Landsbankans er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, að húsið tengist sögu bankans órjúfanlegum böndum. „Vegna breytinga á bankaþjónustu er það hins vegar orðið of stórt fyrir starfsemina og það er tímabært fyrir bankann að flytja í nýtt og hentugra húsnæði.

Sigtún Þróunarfélag vinnur nú að uppbyggingu á nýjum miðbæ á Selfossi af miklum myndarskap og mun félagið vafalaust finna húsinu nýtt og spennandi hlutverk,“ er haft eftir Lilju.

Þar er einnig haft eftir Leó Árnasyni að kaupin séu liður í uppbyggingu Sigtúns á Selfossi. „Húsið er stór hluti af sögu og bæjarmynd Selfoss og í því liggja mikil menningarverðmæti.

Sigtún Þróunarfélag er meðvitað um varðveislugildi þess og mun leggja áherslu á að það haldi reisn sinni til framtíðar og að dyr þess verði áfram opnar Selfyssingum og gestum þeirra.“

Heimild: Ruv.is