Home Fréttir Í fréttum Viðbótarkostnaður vegna Vetrarmýrar fellur á Garðabæ

Viðbótarkostnaður vegna Vetrarmýrar fellur á Garðabæ

250
0
Framkvæmdir standa yfir við íþróttahús sem rís í Vetrarmýri í Garðabænum. Kostnaður við verkið varð meiri en áætlað var. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Verið er að reisa fjölnota íþróttahús sem mun standa í Vetrarmýri í Garðabæ. Eftir að framkvæmdir við húsið hófust komust Íslenskir aðalverktakar að því að kostnaður við jarðvegsvinnu yrði meiri en áætlað var í útboði.

<>

Gerðardómur hefur komist að því að Garðabær skuli greiða meirihluta þess kostnaðar.

Gerðardómur hefur úrskurðað að sveitarfélagið Garðabær skuli greiða meirihluta af rúmlega 200 milljóna króna viðbótarkostnaði vegna byggingar fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýri í Garðabæ.

Íslenskir aðalverktakar unnu allsherjarútboð um verkið á sínum tíma með tilboði upp á 4,2 milljarða króna. Þegar jarðvegsvinna á verkstað hófst kom í ljós að fyrri áætlanir dugðu ekki og því blasti við að ráðast þyrfti í sértækar aðgerðir til styrkingar á mýrarjarðveginum.

Verðmiðinn á þeim viðbótarframkvæmdum var í kringum 350 milljónir króna. Hófust þegar deilur milli sveitarfélagsins og verktakans um hvor bæri ábyrgð á mistökunum og ætti að bera kostnaðinn.

Rök Garðabæjar voru á þá leið að um allsherjarútboð væri að ræða og því ætti kostnaðurinn að rúmast innan skilmála verksamnings. ÍAV hélt aftur á móti fram að jarðvegsrannsóknir sem fylgdu útboðsgögnunum hefðu verið ófullnægjandi.

Fréttablaðið greindi frá deilunum í janúar á þessu ári og að hlé hefði verið gert á framkvæmdunum.

Í viðtali á þeim tímapunkti taldi Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, afar ólíklegt að viðbótarkostnaður myndi lenda á bæjarsjóði og að verkið myndi aðeins tefjast í 1-2 mánuði.

Svo fór að verkið tafðist um tæpa átta mánuði og leystist ekki fyrr en deiluaðilar ákváðu að hvor um sig myndi taka á sig 60 milljónir af viðbótarkostnaðinum og að afganginn, áðurnefndar 200 milljónir, myndi gerðardómur úrskurða um.

Niðurstaða gerðardóms var sú að fallast að mestu leyti á rök ÍAV í málinu og var úrskurðað að 80 prósent af viðbótarkostnaðinum myndi falla á Garðabæ, eða um 166 milljónir króna.

Sá hluti sem fellur á ÍAV er meðal annars vegna tafa og sinnuleysis, en verkið hófst ekki fyrr en sjö mánuðum eftir að útboði lauk.

Sara Dögg Svanhildardóttir, oddviti Garðabæjarlistans, segir að minnihlutinn hafi frá upphafi haft efasemdir um að Garðabær væri í fullum rétti í málinu og undirbúningi verksins hafi verið ábótavant af hálfu bæjarins.

„Rannsókn sem hafin var á jarðvegi undir bygginguna var hafin fyrir margt löngu, en aldrei kláruð. Það er verulega ámælisvert,“ segir Sara Dögg.

Hún segir að framkvæmdin sé enn eitt dæmið um galla á opinberum innkaupum sveitarfélaga, ekki bara Garðabæjar heldur allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég kalla eftir endurskoðun á þessu fyrirkomulagi. Það er óásættanlegt að eyða skattfé í ítrekuð málaferli. Næg eru verkefnin sem skortir fjármagn,“ segir Sara.

Heimild: Frettabladid.is