Home Fréttir Í fréttum Meira verður byggt á kvikmyndaþorpslóðum Baltasars Kormáks

Meira verður byggt á kvikmyndaþorpslóðum Baltasars Kormáks

340
0
Skiptar skoðanir eru á byggingu á lóðum í eigu Baltasars Kormáks í Jöfurbási í Gufunesi. Mynd/aðsend

Félag Baltasars keypti lóðir og byggingarrétt undir kvikmyndaþorp og íbúðir í lok árs 2017. Var kaupverðið 1,64 milljarðar króna og fékk Baltasar 10% afslátt.

<>

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Gufuness, vegna lóðanna við Jöfurbás 5 og 7.

Lóðirnar eru í eigu GN Studios ehf. en eigandi þess er leikstjórinn Baltasar Kormákur.

Um er að ræða talsverðar breytingar, því lóðirnar eru stækkaðar og byggingarmagn á þeim eykst. Þá er hámarksfjöldi íbúða loks skilgreindur, en alls er leyfi til þess að skipuleggja samtals 151 íbúð á lóðunum.

Með breytingartillögunni fylgdi samþykki eigenda nærliggjandi lóða, sem voru ánægðir með breytingarnar.

Ekki voru þó allir sáttir. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins og létu bóka þá skoðun sína að mikilvægt væri að jafnræðis væri gætt þegar gerðar væru breytingar á skilmálum uppbyggingaraðila, ekki síst þeirra sem hefðu verið valdir til verksins.

Engar ákveðnar reglur um slíkar breytingar væru í gildi og réttara væri að rýmka reglur almennt frekar en að koma með ívilnanir til einstakra aðila eftir á.

Félag Baltasars keypti lóðir og byggingarrétt undir kvikmyndaþorp og íbúðir í lok árs 2017. Var kaupverðið 1,64 milljarðar króna og fékk Baltasar 10% afslátt .

Gagnrýndu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina söluna harðlega á sínum tíma. Töldu þeir að verðmæti lóðanna væri enn meira og töldu að hagsmunum borgarbúa hefði verið betur gætt ef lóðirnar hefðu verið boðnar út, frekar en að samið hefði verið við einn ákveðinn aðila.

Í byrjun árs 2020 framseldi félag Baltasars lóða- og byggingarréttindi sín til félagsins Gufunes fasteignaþróun ehf., sem er dótturfélag Fasteignaþróunarfélagsins Spildu.

Eigendur þess eru Arctica Finance hf. með 45,45% hlut, Anna Sigríður Arnardóttir með 27,27% hlut í gegnum félagið ASAP ehf. og Sigríður Bryndís Stefánsdóttir og Gísli Reynisson með 27,27% hlut í gegnum félag sitt Hraunsvík ehf.

Heimild: Frettabladid.is