Tekin hefur verið í gagnið ný hreinsistöð fráveitu í Sandgerðisbót á Akureyri.
Í samtali við mbl.is segir Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku að í þessu felist bylting fyrir umhverfið og sömuleiðis Norðurorku.
„Nú erum við loksins komin á þann stað sem við viljum vera, að uppfylla lög og reglur sem í gangi eru,“ segir Helgi.

Áður dælt 90 metrum frá ströndinni
Með nýju hreinsistöðinni er óhreinsuðu skólpi ekki lengur dælt í Eyjafjörðinn, eins og segir á vef Norðurorku. Nú er vatnið hreinsað, öll föstu efnin síuð úr skólpinu og því síðan dælt frá Akureyri, 400 metra út í strauma í Eyjafirði. Áður var vatninu dælt 90 metra frá ströndinni.

Helgi segir enn fremur að Norðurorka sé „stolt að koma þessu í kring“ og segist vona að ríkið muni áfram styðja við sambærilegar framkvæmdir í minni sveitarfélögum.
Heimild: Mbl.is